,,Öryrkjar búa við lægstu tekjur og hæstu skerðingar“
Undirrituð vil brýna fyrir forsætisráðherra að skilja engan eftir í því ástandi sem nú ríkir. Staða fatlaðs og langveiks fólks var slæm fyrir, enda hefur hún versnað ár frá ári, allt frá hruni.
Örorkulífeyrir er í dag rúmar 250.000 kr. fyrir skatt, sárafátækt er því veruleiki stórs hóps öryrkja sem lifir ekki af mánuðinn án þess að neyðast til að nýta mataraðstoð hjálparstofnana.
Undirrituð tekur undir orð ríkisstjórnarinnar um að nú sé brýnt að gera meira en minna, þau orð hljóta að eiga við um örorkulífeyrisþega eins og aðra hópa samfélagsins.
- Nauðsyn þess að hækka grunnlífeyri örorkulífeyris sem hefur ekki verið leiðréttur frá hruni
- Bilið sem hefur myndast milli lágmarkslauna og örorkulífeyris er nú nær 100.000 kr. Árið 2007 voru lágmarkslaun og örorkulífeyrir á pari.
- Aðgerðaráætlun stjórnvalda og tímalína varðandi hækkun örorkulífeyri til jafns við lágmarkslaun. Nauðsynlegt að sjá að unnið sé að því að ná markmiðum.
Ný gögn sýna að engin kaupmáttaraukning varð hjá öryrkjum árin 2018-2019, þar kom einnig fram að öryrkjar búa nú við lægstar tekjur og hæstar skerðingar. Það er vissulega áfall en um leið tækifæri fyrir stjórnvöld að fara strax í markvissa vinnu til að hækka örorkulífeyri og bæta kjör. Nú verða stjórnvöld að stíga inn í ástandið og tryggja að úr verði bætt, að tryggja að veikt og fatlað fólk sem er í viðkvæmri stöðu, búi ekki við skort.
Að lokum legg ég áherslu á að þúsundir fatlaðra og langveikra íslendinga, og fjölskyldur þeirra, bíða eftir viðbrögðum þínum, að þeirra þörfum verði mætt í viðbrögðum stjórnvalda við Covid-19 faraldrinum. Ekki má horfa framhjá því að hluti öryrkja hefur misst þá litlu vinnu sem þeir hafa haft, og einhverjir jafnvel fallið utan hlutabóta kerfis. Fjárhagsáhyggjur leggjast þungt á fatlað og langveikt fólk sem sér ekki fram á breytingar til betri vegar.
Ég vona að málefni örorkulífeyrisþega verði sett á dagskrá stjórnvalda og staða þeirra rædd, hvað sé framundan og hvað sé til ráða til að tryggja viðkvæmum hópi jöfn tækifæri í samfélaginu, réttlæti og vörn gegn fátækt.
Með virðingu og vinsemd, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands
Svar Katrínar er stutt og skorinort, að hún hafi beðið stýrihóp ráðuneytisstjóra að skoða sérstaklega málefni örorkulífeyrisþega.