Hald lagt á fölsuð vegabréf
Fjórir karlmenn voru handteknir á byggingasvæði í Garðabæ þegar lögreglan var við vinnustaðaeftirlit í umdæminu í gær. Grunur leikur á að mennirnir, sem allir eru erlendir ríkisborgarar, hafa fengið skráningu á grundvelli falsaðra vegabréfa og hafi því ekki tilskilin leyfi til að starfa hér á landi. Þeir voru færðir á lögreglustöð og yfirheyrðir, en við húsleitir í tengslum við málið var lagt hald á fölsuð vegabréf.
Mönnunum er nú gert að sæta svokallaðri tilkynningaskyldu, auk þess sem Útlendingastofnun er upplýst um málið. Á vettvangi voru einnig höfð afskipti af tveimur öðrum mönnum, sem ekki höfðu heimild til vinnu, en þar var um að ræða hælisleitendur. Við aðgerðirnar í gær var notuð ný bifreið lögreglunnar, en hún er einkum ætluð fyrir landamæraeftirlit á höfuðborgarsvæðinu og er vel búin tækjum til þess. Þar á meðal tæki til að skoða og sannreyna skilríki.
Eftirlitið er samvinnuverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Vinnueftirlits ríkisins, Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra.