Hugleiðingar veðurfræðings
Í dag er útlit fyrir hvassa suðvestanátt, jafnvel stormur á stöku stað. Yfirleitt hægari vindur norðvestantil á landinu. Búast má við skúrum eða slydduéljum, en það styttir upp og rofar til norðaustan- og austanlands. Hiti á bilinu 2 til 7 stig. Eftir daginn í dag skiptir veðrið um gír og útlit er fyrir að fyrsti alvöru norðanáttarkafli vetrarins sé væntanlegur á næstu dögum.
Á morgun er semsagt útlit fyrir vaxandi norðanátt á landinu, víða hvassvðri eða stormur eftir hádegi. Á sunnanverðu landinu er gert ráð fyrir lítilli úrkomu, einungis dálitlum éljum á víð og dreif. Þó ber að nefna að þar sem laus snjór er á jörðu, mun hann fara af stað og mynda skafrenning. Á norðurhelmingi landsins má búast við snjókomu og gæti hún orðið í nægilegu magni til að tala megi um stórhríð með köflum á Norður- og Norðausturlandi.
Síðan gera spár ráð fyrir að norðanáttin haldi sama styrk á fimmtudag, en það herðir á frostinu þegar hrollkalt loft berst yfir okkur beint norðan úr Íshafinu. Ekki er gert ráð fyrir að norðanvindurinn gangi niður að gagni fyrr en eftir hádegi á föstudag og þá fer að stytta upp og létta til. Eins og oft vill verða þegar lægir og léttir til eftir kalda norðanátt, þá nær frostið sér á strik og horfur eru á hægum vindi um helgina með hörkufrosti. Spá gerð: 01.12.2020 06:32. Gildir til: 02.12.2020 00:00.
Veðuryfirlit
250 km ASA af Ammassalik er allvíðáttumikil 968 mb lægð sem þokast A og síðar NA.
Samantekt gerð: 01.12.2020 07:30.
Veðurhorfur á landinu
Gengur í suðvestan 15-23 m/s í dag, en yfirleitt hægari vindur norðvestantil á landinu. Skúrir eða slydduél, en rofar til norðaustan- og austanlands. Hiti 2 til 7 stig. Kólnar heldur í kvöld með éljum og snýst þá í norðanátt á Vestfjörðum með snjókomu þar.
Vaxandi norðanátt á morgun, víða 15-23 m/s eftir hádegi. Lítilsháttar él á sunnanverðu landinu. Snjókoma á norðurhelmingi landsins, sums staðar talsverð ofankoma á Norðurlandi. Kólnandi veður, frost 1 til 6 stig þegar líður á daginn.
Spá gerð: 01.12.2020 05:46. Gildir til: 02.12.2020 00:00.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Gengur í suðvestan 15-20 m/s í dag með skúrum eða slydduéljum, hiti 2 til 7 stig. Suðvestan 13-18 í kvöld með éljum og kólnandi veðri.
Norðan 10-18 á morgun, lítilsháttar él og frost 0 til 4 stig. Spá gerð: 01.12.2020 05:35. Gildir til: 02.12.2020 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Norðan 15-23 m/s, en 20-28 SA-lands. Snjókoma eða él á N- og A-landi, frost 2 til 9 stig.
Á föstudag:
Norðan 13-20 með éljagangi N- og A-lands, en bjartviðri á S- og V-landi. Lægir og styttir upp síðdegis, fyrst vestast á landinu. Herðir á frosti.
Á laugardag og sunnudag:
Hæg breytileg átt og víða bjartviðri, en suðvestan 3-8 og dálítil él á Vestfjörðum. Frost 5 til 18 stig.
Á mánudag:
Líkur á suðaustanátt með hlýnandi veðri.
Spá gerð: 01.12.2020 08:11. Gildir til: 08.12.2020 12:00.