Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ákveðið að gera viðbótarsamning um kaup á 100 milljónum skammta bóluefnis frá Pfizer til viðbótar þeim 200 milljónum sem framkvæmdastjórnin hafði áður samið um. Þetta gefur öllum ríkjum sem aðild eiga að Evrópusamstarfinu, Íslandi þar með töldu, kost á að kaupa meira bóluefni frá framleiðandanum. Samningur Íslands um kaup á 80.000 skömmtum til viðbótar frá Pfizer verður undirritaður á morgun. Viðræður framkvæmdastjórnarinnar og Pfizer um afhendingaráætlun standa yfir og verða þær niðurstöður kynntar um leið og þær eru ljósar.
Fyrri samningur Íslands um bóluefni Pfizer kveða á um 170.000 skammta bóluefnis. Með viðbótarsamningnum bætast við 80.000 skammtar og hefur Ísland þá tryggt sér 250.000 skammta sem dugir fyrir 125.000 manns frá þessu fyrirtæki. Pfizer er fyrsta bóluefnið sem fengið hefur markaðsleyfi í Evrópu. Fyrstu 10.000 skammtar efnisins komu til landsins í dag og bólusetning hefst á morgun.