Uppfært 23.01. Rýming vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á Siglufirði og óvissustig á Norðurlandi. Hættustig er á Ísafirði og óvissustig á norðanverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðhættu.
Ákveðið hefur verið að rýma reit 9 á Ísafirði, þar sem er atvinnuhúsnæði. Áður hafði verið tryggt að húsin væru mannlaus eftir að vinnu lauk í gær. Nokkur flóð hafa fallið í Skutulsfirði í gær og í nótt, þar af þrjú ofan þessara húsa. Ekkert þessara snjóflóða hefur verið mjög stórt. Sorpmóttaka í Funa er einnig lokuð vegna snjóflóðahættu.
Spáð er áframhaldandi norðan- og norðaustanáttum með skafrenningi og éljagangi fram yfir helgi og því má búast við því að snjóflóðahætta verði viðvarandi næstu daga.
Viðvörun
Hættustig vegna snjóflóðahættu á Siglufirði Meira
Viðvörun
Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi Meira
Viðvörun
Óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum Meira
Viðvörun
Hættustig vegna snjóflóðahættu á Ísafirði Meira
Gul viðvörun vegna veðurs: Vestfirðir, Strandir og norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og Austfirðir
https://gamli.frettatiminn.is/23/01/2021/isafjordur-ryming-a-svaedi-9-vegna-snjoflodahaettu/
Uppfært 22.01. kl. 9.40 Staðan á rýmingum á Siglufirði verður endurmetin nú þegar birtir af degi, en veðurspár gera ráð fyrir meiri úrkomu eftir hádegi og enn verra veðri á morgun laugardag.
Vegna snjósöfnunar, veikra snjóalaga og veðurspár framundan var ákveðið að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði á miðvikudag vegna snjóflóðahættu. Húsin sem rýmd voru eru undir varnargarðinum Stóra-Bola sem reistur var 1998-99. Síðan þá hafa mörg snjóflóð fallið á hann og garðurinn hefur bægt þeim frá byggðinni. Í janúar í fyrra féllu mjög stór snjóflóð á varnargarða ofan Flateyri og fóru að hluta til yfir þá. Eftir það hefur verið unnið að endurskoðun á virkni leiðigarða á fleiri stöðum. Fyrstu niðurstöður fyrir Stóra-Bola undir Strengsgiljum gefa til kynna að ef mjög stór flóð falla á garðinn geti gefið yfir hann. Rýmingin nú er því varúðarráðstöfun sem tekur mið af bráðabirgðarýmingarkorti. Þess má geta að ávallt hefur verið gert ráð fyrir rýmingu undir varnargörðum við allra verstu aðstæður.
Spáð er áframhaldandi norðan- og norðaustanáttum með skafrenningi og éljagangi fram yfir helgi og því má búast við því að snjóflóðahætta verði viðvarandi næstu daga.
Færsla frá 20.01.2021
Ákveðið hefur verið að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði vegna snjóflóðahættu. Mörg snjóflóð hafa fallið í dag og síðustu daga á svæðinu frá Siglufirði og inn að Dalvík. Meðal annars féll stórt snjóflóð á skíðasvæðinu á Siglufirði og skemmdi skíðaskálann þar.
Ofan húsanna sem nú eru rýmd er varnargarðurinn Stóri-Boli. Hann var reistur árin 1998-1999 og hafa mörg snjóflóð fallið á hann síðan þá. Rýmingin nú er varðúðarráðstöfun þar sem að við verstu aðstæður getur hluti stórra snjóflóða farið yfri varnargarða eins og sýndi sig þegar snjóflóð fóru yfir varnargarða á Flateyri fyrir rúmu ári síðan.
Stíf N-læg átt með snjókomu hefur verið síðan á mánudag og talsverð úrkoma hefur mælst á annesjum Norðanlands. Á mánudag féll snjóflóð yfir Ólafsfjarðarveg og lokaði honum en í gær sáust talsvert stór snjóflóð úr Ósbrekkufjalli í Ólafsfirði og féll eitt þeirra fram í sjó.
Gul viðvörun er í gildi fyrir Norðurland eystra vegna aukinnar snjókomu, mest á Tröllaskaga með líkum á samgöngutruflunum vegna færðar, einkum á fjallvegum. Búist er við stífri N- og NA átt með snjókomu og éljum fram yfir helgi.