Frelsi smábáta á að vera aðalsmerki íslendinga
Það er athyglisvert að sjá hversu margir hafa nú þegar komið að máli við mig og sýnt þessu nýja félagi áhuga, Réttlæti sem á líklega eftir að verða að veruleika. En það mun aðeins gerast með samstöðu og ákveðni þjóðarinnar sem hefur væntanlega fengið nóg af spillingu sem viðgengst í þjóðfélaginu.
Menn ganga erindagjörða fyrir fámennan hóp til að sölsa undir sig allar helstu auðlindir sama hvaða nafni þær gefast, Bankar, Orka, Fiskur, nefnið það og nýjasta nýtt hálendið sem verður væntanlega túrista kvótavænt enda brýn nauðsyn að búa til Kvótakerfi þar lika.
Gjafakvótakerfið er ónýtt
En það alvarlegra er að ef rétt reynist þá hefur verið horft fram hjá því að keypt hafa verið til landsins fyrir gjafakvótakerfið öflugri skip heldur en fyrir voru og þrátt fyrir að sýnt væri að þörf væri á verndun fiskistofnanna að mati Mannréttindadómstóls. Og var talað þá um að skipin sem áður voru,- væru ógn við auðlindina. Þurfti þá að koma með kraftmeiri skip og stærri veiðarfæri til að tryggja að hér yrði ekki vöxtur í fiskistofnum þjóðarinnar?
Hér er einhver pottur brotinn, með öflugri skipum þá gerist margt, Eyðingaraflið eykst við lífríki sjávar, sem er viðkvæmt og á viðkvæmu stigi til vaxtar, og auðveldar ekki fiskistofnum að stækka þegar skipin eru gerð öflugri gagnvart viðkvæmri sjávarauðlind sem ekki hefur fengið að vaxa.
Við það að stækka skipin er auðveldara að komast hjá réttum löndunartölum, hægt er að velja sér hráefni og henda því sem ekki hentar, og ef viðkomandi á vinnslu og markaði erlendis og er með heimaviktunarleyfi þá fer uppgjör við Hafnir áhöfn og skattar og virðisauki hugsanlega að verða ansi skakkt.
ÞETTA ALLT ER VISSULEGA MÖGULEIKI, og sömuleiðis má gera ráð fyrir röngum aflatölum enda skrítið að ekki sé hægt að auka hér aflaheimildir svipað og í nágrannalöndum okkar allt í kring og þetta er samt sami sjórinn, allavega er eitthvað rangt í útreikningum einhversstaðar það eða einhverjir sem fara ekki að lögum með auðlindina, hugsanlega.
Alla vega lítur þetta ekki vel út að hér dragist aflaheimildir saman í áratugi þegar aðrar þjóðir bæta við sig.
Að hengja bakara fyrir smið
En er þetta næg ástæða fyrir að einyrkjum á handfærum með 4 rúllur eru skamtaðir 4 dagar í viku í aðeins 4 mánuði ársins eða 48 dagar? Fjóra mánuði ársins!!
Kommon, og minna ef kvótaþakið á bak við þessa daga er búið 10-11.000 tonn áður en bátarnir hafa náð 48 dögum sínum.
Þetta eru veiðarfæri sem hanga í línu frá bátunum 4 krókar á hverri rúllu eru í hafinu, í mesta lagi 8 til10 klukkustundir á dag og samt ógnar þessi veiðiskapur líklega auðlind okkar ekki sem neinu nemur í samanburði við það sem leyft hefur verið hjá stórútgerðinni, sem fær að nýta alla daga ársins.
Með eyðingarafl fyrir lífríki sjávar 365 daga ársins og með átroðningi á uppeldi seiða. Það getur ekki verið gott á grunnsævi að grugga upp botnlag og valda með því flótta fisks enda ekki sáttur að fá svifryksmengun í öndunarfæri sín. Veiðar þeirra eru leyfðar nær og nær fjöruborði lands þannig að trillur þurfa helst að sækja sinn afla út fyrir stóru skipin. Skipa sem standast engan samanburð á veiðarfærum og getu og þessir útgerðaflokkar standast heldur engan samanburð í umhverfismálum þegar kemur að olíunotkun og mengun pr tonn.
Veiðar smábáta takmarkaðar við skammarlegt lágmark
Þrátt fyrir þetta allt eru veiðar smábáta takmarkaðar við skammarlegt lágmark, en ættu tvímælalaust að búa við frelsi þar sem þær eru umhverfisvænni, atvinnuskapandi og gefa þorpum ferskan andblæ fyrir ferðamennina að sjá líf í bæjum um allt land.
Í leiðinni myndi það leiðrétta að hluta verðmæti þorpanna í landinu sem urðu fyrir eignaupptöku við kvótasettningu síns tíma. Þó ekki væri gert annað en að opna betur á veiðar smábáta, þá væri verið að koma til móts við þjóðina og viðurkenna það ranglæti og eignaupptöku sem hefur fylgt kvótakerfinu frá því það var sett á. Aldrei hefur verið sannað að smábátar á handfærum geti grandað fiskistofnum þjóðarinnar.
Og kalla ég eftir þeim rökum ef einhver á þá rannsókn sem sýnir það. Er möguleiki á að einhver svari fyrir þetta hér af okkar ráðamönnum?
Eða geta þeir hugsanlega ekki svarað vegna vanþekkingar á því kerfi sem notað er í dag? Eða er kvótakerfið bara hagstjónartæki fyrir fjármagn og á það þá rétt á sér til að hefta veiðar smábáta eins og raun ber vitni?
Frelsi smábáta á að vera aðalsmerki íslendinga enda er það frumbyggjaréttur þjóðarinnar allrar sem er undir. Kannski er þörf á félagi um RÉTTLÆTI, TIL AÐ ÞJÓÐIN FÁI LEIÐRÉTT EITTHVAÐ AF ÞVÍ SEM KVÓTAKERFIÐ HEFUR HAFT Í FÖR MEÐ SÉR OG AFLEIÐINGAR ÞESS, SEM SJÁST ÚT UM MEST ALLT LAND.