Verðandi faðir skannaði inn vinning upp á 21 milljón
Ung hjón með eitt barn og annað í leiðinni duttu svo sannarlega í lukkupottinn þegar Lottómiðinn þeirra reyndist luma á óskiptum tvöföldum fyrsta vinningi. Konan sem hafði einhvern tímann heyrt að ágætt væri að kaupa Lottómiða fjarri heimahögum ákvað að taka einn sjálfvalsmiða í Olís Langatanga þegar hún átti leið gegnum Mosfellsbæ.
Þegar hún lét svo fara yfir miðann eftir útdrátt fékk hún ábendingu um að koma sem fyrst á skrifstofu Íslenskrar getspár í Laugardal. Þetta þótti henni óþarfa umstang fyrir ólétta konu enda hafði hún rekið augun í það að seðlinum var ein röð með 3 rétta og slíkir vinningar eru alltaf greiddir út beint.
Þrír réttir breyttust í 21 milljón með skannanum
Maðurinn hennar prófaði hins vegar að skanna miðann inn í nýju útgáfu Lottóappsins og kom þá í ljós að auk þess að vera með þrjá rétta var önnur röð á seðlinum með allar fimm tölurnar réttar! Það varð því mikil gleði þegar unga fjölskyldan kom í Laugardalinn daginn eftir og ljóst að skanninn í Lottóappinu hafði sannað gildi sitt.
Þess má til gamans geta að örfáum dögum síðar kom annar stór vinningur á miða sem einnig var keyptur í Olís Langatanga, en í það skiptið var það í Vikinglotto. Íslensk getspá óskar ungu fjölskyldunni innilega til hamingju með stóra vinninginn.