Fengu rúmlega 48,5 milljónir
Hjón í Reykjanesbæ sem fengu 2. vinning í EuroJackpot upp á rúmlega 48,5 milljónir, fóru í gegnum allan tilfinningaskalann og áttu hreinlega erfitt með að trúa því að þau hefðu í raun og veru unnið. Vinningurinn nam alls rúmlega 291 milljón og skiptist á milli sex miðahafa. Vinningsmiðinn á Íslandi var keyptur í Bitanum í Reykjanesbæ en hinir fimm í Þýskalandi.
Maðurinn, sem er dyggur lottóspilari, hefur það fyrir venju að kaupa 5 raðir í sjálfvali í Eurojackpot fyrir 1.600 krónur. Eftir að hafa látið kanna miðann á sölustað, kom hann heim og tárin tóku að streymdu niður. Konan hans hélt í fyrstu að eitthvað alvarlegt hefði komið upp á en sem betur fer voru tíðindin mjög svo gleðileg. Börnum þeirra voru færðar fréttirnar og fengin til að staðfesta vinningskvittunina en jafnvel eftir þá vottun hélt konan áfram að efast og taldi ekki ólíklegt að þau hefðu í raun aðeins unnið 48 þúsund krónur. „Elskan mín, teldu bara núllin!“ sagði maðurinn þá!
Hjónin sem eru á besta aldri sögðu að þessi fjárhæð mundi svo sannarlega koma sér vel í lífi þeirra og breyta miklu. Hlakka þau til að geta gert vel við sig og sína, þau sögðust jafnvel koma til með að bæta við einni eða jafnvel tveimur aukavikum í næstu ferð til Tenerife þegar færi gefst á ferðalögum á ný.
Íslensk getspá óskar hjónunum innilega til hamingju með þennan glæsilega vinninginn.