Hugleiðingar veðurfræðings
Veturinn er því miður ekki enn búinn að sleppa tökunum og er von á vonskuveðri seint í dag með stormi og snjókomu. Gular og appelsínugular viðvaranir taka þá gildi og mikilvægt fyrir þá sem ætla að ferðast á milli landshluta að fylgjast vel með veðurspám. Hvassast sunnan- og vestanlands, en hægari vindur um landið norðaustanvert. Lægir þó hratt sunnantil á landinu í kringum miðnætti. Á sunnudag er enn hvöss norðanátt með samfelldri snjókomu norðantil á landinu, en mun hægari vindur um landið sunnanvert og úrkomulítið. Áfram stíf norðanátt í kortunum á mánudag, dálítil él fyrir norðan, en léttir til syðra.
https://www.vedur.is/vidvaranir
Veðurhorfur á landinu
Norðvestan 8-15 m/s og él um landið norðaustanvert í fyrstu, en annars breytileg átt 5-10 og skýjað með köflum. Talsvert frost.
Vaxandi austan- og norðaustanátt þegar líður á daginn, víða 18-25 m/s og snjókoma með köflum í kvöld, en hægari vindur um landið norðaustanvert. Dregur úr frosti. Lægir um landið sunnanvert í nótt. Norðan og norðaustan 15-23 norðanlands á morgun og snjókoma. Mun hægari vindur sunnantil á landinu og dálítil él, en styttir upp og léttir nokkuð til síðdegis. Frost 0 til 6 stig, en hiti um frostmark við suðurströndina.
Spá gerð: 27.03.2021 05:12. Gildir til: 28.03.2021 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Norðan og norðvestan 8-15 með éljum N-lands, en björtu veðri S-til á landinu. Frost 0 til 7 stig, en frostlaust syðst að deginum.
Á þriðjudag:
Vestlæg eða breytileg átt 3-8 og víða léttskýjað, en stöku él á Vestfjörðum. Áfram kalt í veðri.
Á miðvikudag:
Vaxandi vestanátt og þykknar upp, 10-18 m/s síðdegis og lítilsháttar slydda eða rigning N- og V-lands. Hlýnandi veður.
Á fimmtudag (skírdagur):
Vestanátt og léttskýjað á A-verðu landinu, en skýjað V-lands. Hiti 2 til 8 stig yfir daginn.
Á föstudag (föstudagurinn langi):
Vestanátt, úrkomulítið og milt veður, en bjartviðri A-lands.
Spá gerð: 27.03.2021 08:02. Gildir til: 03.04.2021 12:00.