Það er dapurt en staðreynd að margur öryrkinn er orðinn auralítill í lok mánaðar. Ég fæ t.d. heilar 176.530 kr frá TR og svo til viðbótar frá lífeyrissjóði þannig að eftir skatta hef ég 228.960 kr úr að moða á mánuði og upphæðin sem ég fæ í evrum flöktir svo með genginu.
Húsaleiga er tæpar 105.000 á mánuði (70 fm íbúð) svo er að lifa spart og safna fyrir öllu sem mig vantar í enn hálftóma íbúð. Þetta er hægt hér þar sem opinber þáttaka hins opinbera er mun meiri í heilbrigðisþjónustu auk þess sem hér gafst sá möguleiki að kaupa sér viðbótartryggingu sem er gott fyrir öryrkja á lyfjum.
Hér hverf ég í fjöldann og ekki sést utan á mér að ég sé auralítil, heima væri ég í hópi öryrkja á leigumarkaði sem rétt skrimta og eru ekkert annað en fátækir og kaffihúsaferðir og fleira skemmtilegt ekki mögulegt, svei attan! Ekki varð ég öryrki að eigin ósk, bara svo það sé á hreinu!
Ég keypti áðan eitt og annað sem mig vantaði og fannst ég þurfa og þetta sem sést á myndinni kostaði heilar 3.285 kr = Salathaus, melóna, box af tómötum, box af sveppum, skinkubréf, beikonkurl, snakkpoki, kókflaska, rauðvín, 4x jógúrt, 1/2 líter mjólk, samlokubrauð, smjörstykki og pastasósa.
Það er alveg ljóst að þessi kona kemur ekki „heim“ í bráð, hversu mikið sem ég þrái fjölskyldu og vini. Ég sé nefnilega ekki hvernig hægt er að lifa með reisn á örorkubótum á Íslandi, er ekki nóg að vera ekki heill heilsu?
Ykkur er guðvelkomið að deila þessu innlegg!“ Segir kona sem býr á Spáni og er öryrki og treystir sér ekki til að lifa á Íslandi vegna stöðunnar á húsnæðismarkaði, vaxtaokri, heilbrigðiskerfi og okri á matvöru og nauðsynjavörum og er ekkert á leiðinni „heim.“