FÍB svarar rangfærslum Sjóvár
FÍB gerir eftirfarandi athugasemdir við fullyrðingar Sjóvár 29. september 2021
Með fullyrðingum um tap á bílatryggingum er forstjóri Sjóvár að slá ryki í augun á almenningi. Forstjórinn veit mæta vel að afkoma tryggingafélaga byggir á tveimur grunnstoðum, iðgjöldum og fjármagnstekjum. Fjármagnstekjur af bílatryggingum eru gríðarlega miklar og sérkennilegt að láta eins og þær skipti hreint engu máli.
Geta Sjóvár til að rísa undir bótagreiðslum er langt umfram lágmarks kröfur. Það kallar Sjóvá á rósamáli að getan sé „fyrir ofan efri mörk viðmiða.“ Í staðinn fyrir að lækka iðgjöld eða endurgreiða viðskiptavinum ætlar Sjóvá nú að láta hluthafa fá þessa fjármuni, samtals 2,5 milljarða króna til viðbótar við 2,65 milljarða króna arðgreiðslu vegna 2020.
Sjóvá segir að það sé „skylda tryggingafélaga að búa yfir umframfjármagni til að hafa bolmagn til að standast lögbundnar kröfur um getu til að mæta áföllum í rekstri.“ Samkvæmt Solvency 2 tryggingareglugerð Evrópusambandsins er gjaldþolskrafa Sjóvár 11,4 milljarðar króna. Félagið hefur hins vegar gjaldþol upp á 21,7 milljarða króna.
Bolmagnið er þannig langt umfram skyldu vegna þess að félagið oftekur iðgjöld og hefur góðar fjármagnstekjur af þeim. Til að mynda hækkaði verðbréfaeign félagsins um 8 milljarða króna milli 2019 og 2020. Þessi eign byggir alfarið á ávöxtun oftekinna iðgjalda. En í stað þess að skila fjármununum ætlar Sjóvá að gefa þá hluthöfum.
Ótrúleg öfugmæli felast í þeirri fullyrðingu Sjóvár að „öflugt samkeppnisumhverfi á íslenskum tryggingamarkaði tryggi sanngjarna iðgjaldssetningu.“ Ekkert er fjær sanni, iðgjöld hér eru til dæmis mun hærri en á hinum Norðurlöndunum og verðsamkeppni þekkist varla á milli tryggingafélaganna.
Hérna er hlekkur inn á yfirlýsinguna frá Sjóvá: https://www.sjova.is/um-okkur/frettir/almennar-frettir/vegna-umraedu-um-okutaekjatryggingar/
https://gamli.frettatiminn.is/29/09/2021/sjova-skili-25-milljordunum-til-tryggingataka/