Fyrir 10 vikur af hraðprófum greiddu Sjúkratryggingar Íslands einkafyrirtækjum sem annast hraðpróf samtals 240 milljónir króna. Það er 24 milljónir á viku. Og ekki stöðvast austurinn úr vösum skattborgaranna þvi kostnaður við sýnatökur á flugvelli og við Suðurlandsbraut eru 460 milljónir á fyrstu tíu mánuðum ársins. Og samt eru ekki öll kurl komin til grafar, því heildar prófakostnaðurinn er orðinn hvorki meira né minna en um 2.4 milljarðar króna.
Þennan fjáraustur mætti ef til vill réttlæta ef menn teldu hraðprófin áreiðanleg. En svo er ekki, í það minnsta hefur Kári Stefánsson okkar fremsti sérfræðingur á þessu sviði lýst miklum efasemdum um áreiðanleika prófanna. Og reyndar líka sjálfur Þórólfur sem telur jafnvel að prófin nemi alls ekki nýjustu veiruna.
En þar sem miklir hagsmunir eru á ferð þá litast gjarnan fréttamennskan af því sem á borð er borið af hagsmunaaðilum. Hér er að sjálf sögðu ekki átt við Þórólf eða forsvarsmenn heilsugæslunnar. En vonandi sér nýr heilbrigðisráðherra í gegnum þennan vef og stöðvar afar vafasaman fjáraustur sem virðist lítið draga úr kóvítflensunni.
Umræða