Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi
Álag á lögreglu vegna skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi hefur aukist vegna notkunar brotahópa á stafrænni tækni. Hraðar samfélagsbreytingar hafa breytt umhverfi löggæslu á Íslandi. Skipulögð brotastarfsemi með aðkomu fjölþjóðlegra brotahópa hefur aukist og breyst á Íslandi þar sem nýjum stafrænum ógnum fylgja nýjar áskoranir.
Íslenskur fíkniefnamarkaður heldur áfram að þróast í átt til þess sem þekkist annars staðar í Evrópu og staðfestir ný íslensk rannsókn á frárennslisvatni á höfuðborgarsvæðinu að fíkniefnaneysla í Reykjavík er umfangsmikil og í líkingu við það sem þekkist í öðrum borgum í Evrópu. Lögreglan hefur upplýsingar um að á Íslandi starfi glæpahópar sem leggja stund á skipulagt smygl á fólki og mansal. Að gefinni forsendu um aukna áherslu á málaflokkinn er líklegt að mansalsmálum fjölgi á næstu tveimur árum.
Netárásum fer ört fjölgandi samkvæmt upplýsingakerfi lögreglu og hafa tilkynnt atvik til CERT-ÍS rúmlega tvöfaldast frá árinu 2019 og hafa netþrjóar svikið út umtalsverða fjármuni almennings og fyrirtækja. Það er mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra að enn sé netvörnum, vöktun og viðbúnaði gegn netglæpum ábótavant.
Þá er talið nærri öruggt að umfangsmikið peningaþvætti fari fram á Íslandi.
Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur að bæta megi menntun og fræðslu fyrir lögreglumenn varðandi stafræna glæpi og bæta aðgengi lögreglu að sérfræðiþekkingu og samvinnu við fagaðila til þess að vinna betur á skipulagðri brotastarfsemi. Afskipti lögreglu af skipulagðri brotastarfsemi í formi frumkvæðislöggæslu á landsvísu er takmörkuð.
Frá skýrslu ársins 2019 hafa stjórnvöld stuðlað að því að efla getu löggæslu í baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Skýrslu um skipulagða brotastarfsemið árið 2021 má finna hér.