Ákvörðun Lögreglunnar á Norðurlandi eystra að kalla fjóra blaða- og fréttamenn til yfirheyrslu með réttarstöðu sakbornings hefur vakið umræður um hvað fjölmiðlar mega og mega ekki fjalla um. Lengi hefur verið tekist á um það hérlendis og mörg meiðyrðamál hafa ratað í dómsali og sum mál hafa endað fyrir mannréttindadómstóli Evrópu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er einn þeirra sem tjáir sig um það mál sem nú er um rætt:
,,Í okkar góða landi er þrískipting ríkisvalds. Það felur meðal annars í sér að Alþingi setur lög, framkvæmdavaldið fylgir lögum eftir og sjálfstæðir dómstólar leysa úr lagalegum ágreiningi. Oft er sagt að fjórða valdið liggi hjá fjölmiðlum sem horfa yfir sviðið og upplýsa almenning um gang mála.
Nú berast fréttir af því að lögreglan á Norðurlandi eystra hafi tekið mál til rannsóknar og með símtali í gær boðað fjóra fréttamenn til yfirheyrslu. Það eina sem fram er komið frá lögreglunni er að embættið sé með brot á friðhelgi einkalífs til rannsóknar.
Við höfum mátt venjast því í fréttaflutningi af lögreglumálum þegar almennir borgarar eiga í hlut að fjölmiðlar beini sjónum sínum að því hvað hinn grunaði kunni að hafa unnið til saka. Iðulega er mikið á sig lagt til að grafast fyrir um það og enginn vafi að almenningur kann vel að meta vandaða rannsóknablaðamennsku. Mál sem eru til rannsóknar fá reglulega umfjöllun í fréttatímum og framvindu mála er fylgt eftir frá rannsókn til ákæru og dóms eða niðurfellingar máls eftir atvikum.
Það verður að segjast eins og er að svo virðist sem þessi hefðbundu vinnubrögð og lögmál eigi ekki við, að minnsta kosti ekki að öllu leyti, í tilviki blaðamannanna sem fengu símtal í gær.
Engar fréttir hafa verið fluttar af því sem mestu máli skiptir og flesta þyrstir að vita hvað lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar. Þeir sem stjórnað hafa þeirri umræðu eru þeir hinir sömu og nú eru til rannsóknar. Það eina sem þeir hafa fram að færa hins vegar eru getgátur um það hvað lögreglan muni mögulega vilja spyrja þá um og álit þeirra á eigin getgátum um það. Þeir segja okkur að þeim sé gefið að sök að hafa nýtt gögn til að skrifa fréttir. En hvað vita þeir svo sem um það á þessu stigi máls?
Ríkisútvarpið tók málið skrefinu lengra og fékk lögmann til að lýsa því yfir að ef málið snerist um það sem blaðamennirnir sjálfir telja, þá sé nær útilokað að ákæra verði gefin út og svo les maður fréttir af dómafordæmum um að slík mál séu vonlaus frá upphafi. ,,Afar ólíklegt að blaðamennirnir fjórir verði ákærðir,“ segir í fyrirsögn fréttar á ruv.is. Þetta er áður en nokkur maður veit hvaða gögn lögreglan hefur eða hvaða spurninga hún leitar svörum við. Eru einhver fordæmi fyrir svona vinnubrögðum fréttastofu?
Öll fréttin er að gefnum forsendum þeirra sem fengu símtal í gær. Hefði Ríkisútvarpið ekki mátt láta þess getið að sumir þeirra sem eru með kenningar um það hvað málið snýst hafa starfað á Ríkisútvarpinu. Hefði það ekki sýnt lágmarks viðleitni til að gæta hlutleysis í máli sem virðist á algjöru byrjunarstigi?
Formaður Blaðamannafélagsins hefur komist að því að máið sé alvarlegt og óskiljanlegt. Gott ef ég heyrði ekki að það væri búið að senda bréf til útlanda til að vekja athygli á þessu alvarlega máli.
Ég get ekki varist því að spyrja nokkurra spurninga þegar maður les, heyrir og sér hverja fréttina á eftir annarri vegna símtalsins frá lögreglunni í gær.
Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar? Hvernig getur það talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu?
Ef fjölmiðlamennirnir eiga þann lögvarða rétt sem þeir gefa sér að eigi við í þessu máli, að svara ekki spurningum lögreglunnar, vilja þeir þá ekki bara gera það, neita að svara. Er það mjög íþyngjandi? Meira íþyngjandi en almennir borgarar þurfa að þola í málum sem eru til rannsóknar lögreglu?
Eru ekki öll fordæmin sem rakin eru í fjölmiðlum og fréttatíma Ríkisútvarpsins einmitt til sönnunar um að við búum í réttarríki og að þeir sem telja sig hafa hreinan skjöld geta mætt óhræddir til lögreglunnar og treyst því að réttarkerfið á Íslandi virki.
Má ekki bara hafa það í huga að sum mál eru felld niður. Önnur fara í ákæru. Í sumum er sakfellt, í öðrum sýknað. Þarf öll þessi stóryrði áður en lögreglan spyr fyrstu spurningarinnar undir rannsókn málsins?
Við gerum öll kröfu til þess að hér á landi séu allir jafnir fyrir lögunum.
Má gera þá kröfu að allir séu jafnir fyrir fjölmiðlunum líka?“ Spyr Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.