Atvinnuleysi mældist 4,6% í mars 2022 samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar.
Samanborið við mars 2021 hefur atvinnuleysi lækkað um 3,5 prósentustig á milli ára. Á sama tíma hefur hlutfall starfandi aukist um 4,2 prósentustig og atvinnuþátttaka um 1,7 prósentustig. Starfandi einstaklingar unnu að jafnaði 35,2 (±1,2) stundir á viku í mars 2022 sem er 2,4 stundum minna en í mars 2021.
Áætlað er að 27.200 einstaklingar hafi haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu (slaki) í mars 2022 sem jafngildir 12,3% af samanlögðu vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 36,7% atvinnulausir, 20,5% tilbúnir að vinna en ekki að leita, 14,7% í atvinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 28,0% vinnulitlir (starfandi í hlutastarfi og vildu vinna meira). Samanburður við mars 2021 sýnir að hlutfall þeirra sem hafa óuppfyllta þörf fyrir atvinnu hefur lækkað töluvert á milli ára eða um 5,1 prósentustig. Árstíðaleiðrétt leitni slaka hefur dregist saman um 1,8 prósentustig síðustu sex mánuði.