Drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðaakstur hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 27. júlí 2022.
Markmið með frumvarpinu er að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu, neytendum og þjónustuveitendum til hagsbóta. Þá er frumvarpinu ætlað að tryggja að íslenska ríkið uppfylli þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið, auk þess að færa lög og reglur um leigubifreiðar til nútímalegra horfs með öruggar og tryggar samgöngur að leiðarljósi.
Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá síðustu framlagningu eru eftirfarandi:
- Sett hefur verið inn skilgreining á hugtakinu leigubifreiðastöð.
- Rekstrarleyfi veitir rétt til reksturs einnar eða fleiri leigubifreiða í stað þess að leyfið veiti aðeins rétt til reksturs einnar bifreiðar.
- Veita má einstaklingum og lögaðilum rekstrarleyfi í stað þess að aðeins megi veita einstaklingum slíkt leyfi.
- Fellt er brott skilyrði um starfsstöð hér á landi til geta fengið útgefið rekstrarleyfi eða starfsleyfi leigubifreiðastöðvar.
- Bætt hefur verið við almennri skyldu rekstrarleyfishafa til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð sem fengið hefur starfsleyfi Samgöngustofu. Þó er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafi geti rekið leigubifreiðastöð án þess að þurfa einnig að öðlast starfsleyfi leigubifreiðastöðvar.
- Sérstaklega er nú tekið fram að sé samið fyrir fram um gjald fyrir ekna ferð megi gjaldið vera ýmist áætlað eða endanlegt. Eftir sem áður skal verðskrá og þær forsendur sem umsamið gjald byggist á vera aðgengilegar viðskiptavini.
Gildandi lög eru frá árinu 2001 en nokkrar breytingar hafa verið gerðar á lögunum frá gildistöku þeirra.
- Skoða drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda
- Nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar
Umræða