Fréttatímanum bárust myndir frá tryggum lesanda, af björtum og litríkum norðurljósum sem glöddu vegfarendur víða um land í nótt.
Ferðamenn sem og íbúar landsins voru duglegir að pósta myndum af þeim en ferðabransinn er duglegur við að selja norðurljósin eins og Einar Ben forðum.
Til gamans má geta þess að vísindavefurinn efast um þá sögu:
,,Á Vísindavefnum er til fjöldi svara um norðurljós enda ljóst að margir hafa áhuga á að vita sem mest um þau.
Norðurljósin myndast þegar straumur rafeinda og róteinda frá sólinni rekst á köfnunarefnis- og súrefnissameindar í ysta lagi lofthjúpsins. Þau myndast einkum á kraga kringum segulpóla jarðar.
Vísindavefurinn fjallar um meinta sölu Einars Ben á norðurljósunum:
Seldi Einar Benediktsson norðurljósin?
Margir hafa væntanlega heyrt þá sögu að Einar Benediktsson hafi reynt að selja norðurljósin.
Vísindavefurinn leitaði ráða hjá Guðjóni Friðrikssyni, sem ritað hefur ævisögu Einars Benediktssonar í þremur bindum (1997, 1999, 2000), til að svara spurningunni.
Í tölvuskeyti til Vísindavefsins segir Guðjón einfaldlega þetta:
,,Ég hef hvergi rekist á neinar heimildir um meinta sölu Einars á norðurljósum eða tilraunum hans í þá átt. Hins vegar var hann sölumaður af guðs náð, hugmyndaríkur með afbrigðum (hann sá oft möguleika þar sem aðrir sáu enga) og oft ósvífinn. Honum væri því vel trúandi til að hafa reynt þetta. En þangað til annað kemur í ljós verður að líta á þetta sem þjóðsögu.“ Sala norðurljósanna virðist því einfaldlega vera flökkusaga eða þjóðsaga, að minnsta kosti þangað til annað kemur í ljós.“ Segir á vísindavefnum.