Elísabet Englandsdrottning er látin, 96 ára að aldri. Þetta kom fram í tilkynningu frá bresku hirðinni nú á sjötta tímanum. Breska hirðin tilkynnti klukkan hálf eitt að breskum tíma, hálf tólf að íslenskum tíma í dag, að læknar hefðu áhyggjur af heilsufari drottningar. Fljótlega eftir það bárust fréttir af því að börn og barnabörn drottningar væru á leið til Skotlands til að vera við hlið hennar.
Drottningin dró mjög úr opinberum verkefnum sínum síðustu mánuði vegna versnandi heilsu. Hún hefur átt við skerta hreyfigetu að stríða og dvalið í Balmoral kastala í Skotlandi. Elísabet tók við embætti drottningar 1952 þegar faðir hennar, Georg VI, andaðist. Hún varð hvort tveggja langlífasti þjóðhöfðingi Bretlands og sá sem gegndi því embætti lengst. Í vor var haldið upp á 70 ára valdatíð hennar í Bretlandi.
Umræða