Sólvangur hefur á örfáum árum orðið að heildrænni þjónustumiðstöð fyrir eldra fólk
Enn einum áfangasigri uppbyggingar á Sólvangi í Hafnarfirði var fagnað í dag með öðruvísi innflutningsboði þegar fjórar nýjar hænur fluttu inn í glænýjan kofa í fallegum og endurgerðum garði sem hugsaður er fyrir íbúa og skjólstæðinga Sólvangs.
Á haustdögum vann Hafnarfjarðarbær að endurgerð garðsins og byggði þar í leiðinni glæsilegan hænsnakofa sem íbúar, dagdvalargestir, gestir heilsusetursins, starfsfólk og aðstandendur munu njóta. Hollvinasamtök Sólvangs færðu heimilinu hænurnar að gjöf og voru þær Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Halla Thoroddsen forstjóri Sóltúns öldrunarþjónustu á meðal veislugesta en báðar eru þær hænueigendur og þekkja þá gleði sem þær færa ungum sem öldnum.
Hænurnar og umsjón þeirra iðjuþjálfun fyrir dagdvalargesti
Garðurinn við Sólvang hefur verið glæsilega endurgerður með þarfir aldraðra og heilabilaðra í huga og stendur í gullfallegu bæjarstæði með útsýni yfir Hamarskotslæk í átt til sjávar. Íbúar og aðrir skjólstæðingar beðið komu hænanna með óþreyju. Dagdvalargestir munu sjá um að sinna hænunum fjórum enda felur umsjónin í sér góða iðjuþjálfun.
Auk þess eru hænurnar hugsaðar til að leiða saman kynslóðirnar og hugmyndin að bæði nemendur í leikskóla og grunnskóla í næsta nágrenni Sólvangs geti líka komið og hitt bæði hænurnar og eigendur þeirra. Innflutningur hænanna markar ákveðin tímamót þar sem nú á einungis eftir að endurnýja og byggja upp efstu hæðina í gamla Sólvangi og þá er full starfsemi komin á allar hæðir í báðum húsunum. Áhersla hefur verið lögð á það síðustu mánuði og ár að byggja upp öfluga og góða öldrunarþjónustu á Sólvangi og greiða þannig aðgang eldri borgara að fyrirbyggjandi þjónustu og stuðningi. Sólvangur er rekinn af Sóltúni öldrunarþjónustu.
Búseta, fyrirbyggjandi þjónusta og stuðningur á einum og sama staðnum
Sólvangur hýsir í dag 71 hjúkrunarrými í tveimur húsum, 60 rými í nýju húsi sem opnað var formlega sumarið 2019 og 11 rými á 2. hæð gamla Sólvangs eftir að húsið gekk í gegnum endurnýjun lífdaga. Þessi 11 rými voru tekin í notkun nú í haust.
Gamli Sólvangur hýsir í dag, til viðbótar við hjúkrunarrýmin ellefu, 12 sérhæfð dagdvalarrými fyrir fólk með heilabilun opnuð í júlí 2019, 14 dagþjálfunarrými sem opnuð voru í október 2021 eftir gagngerar endurbætur á jarðhæð og 39 ný rými fyrir endurhæfingu opnuð haustið 2022. Þjónustan sem opnuð var í haust felur í sér nýja nálgun í stuðningi við eldra fólk, sem njóta heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og hefur það að markmiði, líkt og önnur fyrirbyggjandi þjónusta á Sólvangi, að aðstoða og efla eldra fólk til að dvelja lengur í sjálfstæðri búsetu við betri lífsgæði.