Mannréttindasdómstóll Evrópu hefur hafnað áfrýjun þýsks kennara sem settur var á „svartan lista” sökum þátttöku í pólitískum samtökum róttækra hægri manna. Forsenda úrskurðarins er sú að með þessu hafi kennarinn tekið þátt í athæfi sem ekki samræmist stjórnarskrá Þýskalands.
Kennarinn, kona að nafni Ingeborg Godenau, hefur lengi tekið þátt í starfsemi hópa og flokka yst á hægri væng þýskra stjórnmála. Hún leitaði til Mannréttindadómstólsins i því augnamiði að fá nafn sitt máð af lista yfir kennara sem taldir eru „óhæfir til kennslustarfa”. Listann létu stjórnvöld í sambandslandinu Hessen taka saman árið 2009.
Atvinnulaus frá 2009
Konan segir að sökum þess að nafn hennar var sett á áðurnefndan lista hafi öllum umsóknum hennar um kennarastarf verið hafnað.
Af þeim sökum hafi hún verið atvinnulaus frá 2009 og neyðst til að draga fram lífið á bótum.
Í málinu var því haldið fram að yfirvöld í Hessen hefðu brotið gegn 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um skoðana- og tjáningarfrelsi.
Réttmæt takmörkun tjáningarfrelsis
Niðurstaða dómstólsins var sú að með þessu hefðu stjórnvöld ekki brotið gegn rétti kennarans. Viðbrögð stjórnvalda og afskipti þeirra af tjáningarfrelsi Ingeborg Godenau hefðu verið „í samræmi við tilefnið”. Úrskurðinum fylgdi að henni væri hvenær sem er heimilt að óska eftir því við þýska dómstóla að tekin yrði til endurskoðunar að birta nafn hennar á umræddum „svörtum lista” yfir kennara.
Sagði þar og að sú niðurstaða þýskra dómstóla að draga mætti í efa hollustu hennar við stjórnarskrá Þýskalands væri byggð á „vel rökstuddu mati á fyrirliggjandi staðreyndum” um langvarandi þátttöku kennarans í starfi yst á hægri væng stjórnmálanna.