Óvissustig á sunnanverðum Vestfjörðum
Veðurspár gera ráð fyrir ákafri úrkomu á svæðinu, sem hefst sem snjókoma upp úr miðnætti en færist svo yfir í rigningu árla morguns.
Úrkomumagnið í spánni er svipað því sem var 26. janúar þegar krapaflóð féllu ofan Patreksfjarðar, Bíldudals og í Arnarfirði. Í sama veðri féll vott snjóflóð á Raknadalshlíð í Patreksfirði.
Þar sem ekki er mjög mikill snjór á svæðinu er ekki búist við sérstaklega stórum krapa- og snjóflóðum. Möguleg flóð gætu þó orðið svipuð að stærð og urðu 26. janúar.
Vegfarendur og ferðafólk er hvatt til að sýna aðgæslu á stöðum þar sem grjót getur fallið og nærri vatnsfarvegum í brattlendi þar sem krapaspýjur geta borist niður. Íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð eru hvattir til þess að sýna aðgæslu og ekki dvelja að óþörfu nálægt farvegunum.
Íbúar í húsunum næst Geirseyrargili (Stekkagili) á Patreksfirði hafa verið beðnir um að sýna aðgæslu og dvelja ekki í kjallaraherberjum með gluggum sem vísa upp í hlíðina á meðan mesta rigningin gengur yfir. Eins og horfir við núna þykir þó ekki ástæða til að grípa til rýminga.
Mat á snjóflóðaaðstæðum
Töluverður snjór er á norðurhelmingi landsins. Búast má við nýlegum vindlekum sem geta verið óstöðugir í fjölbreyttum viðhorfum eftir breytilegar vindáttir undanfarið. Á sunnudag er spáð hlýindum og rigningu og þá aukast líkur á votum snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum.
Ofanflóðavakt Veðurstofunnar mun áfram fylgjast náið með þróun mála í samvinnu við almannavarnir og lögreglu á svæðinu.