Líter af bensíni á 300 kr. í stað 200 kr. – Kjúklingabitar sem kosta 341 kr. seldir á 1.419 kr.
Okureyjan Ísland
Á okureyjunni Íslandi er vandlifað nema fyrir elítuna sem græðir á bankaþrælum sem eru fastir í fátætargildru verðtryggingar vegna krónunnar og öðru heimatilbúnu okri á öllum sviðum. FÍB vakti athygli á því að við erum að borga þriðjungi meira fyrir eldsneyti m.v. aðrar þjóðir sem þýðir að fyrir líter sem kostar 300 kr. hér eru greiddar 200 kr. þar sem ekki er okrað á fólki. Við borgum líka helmingi meira fyrir tryggingarnar s.l. 50-60 ár a.m.k! Auðvitað hæstu húsnæðisvexti í heimi líka!
Eyjunni er og hefur verið stjórnað í hálfa öld eða meira af öflum sem er slétt sama um almenning, þ.e. vinnandi og heiðarlegt fólk.
Hér eru stýrivextir 188% hærri en í nágrannalöndum og okurvextir og þjónustugjöld skila bönkunum hundruðum milljarða í hagnað á ári á kostnað þjóðarinnar.
Ríkisstjórnin hefur misst öll tök á fjármálum og skuldasöfnunin er alveg gríðarleg. Þá hefur verðbólgan aldrei verið hærri né skattpíningin í boði ríkisstjórnarinnar sem hefur aukist gríðarlega sem og tollar á innfluttum vörum.
Þá er þessi hlægilega örmynt, krónan verðlaus eina ferðina enn og ranglega skráð niður í 101 Reykjavík, enda enginn frjáls markaður með þennan fáránlega heimatilbúna gjaldmiðil sem erlendir aðilar vita oft á tíðum ekki um að sé til.
Hér er algert stjórnleysi á öllum sviðum og eftir höfðinu dansa limirnir! Þá hnaut ég um þessa umræðu á facebook sem ég skráði hjá mér og læt hér fylgja svo fólk átti sig á því að hér er ekki búandi fyrir okri, tollum og tilheyrandi.
Hér er reynt að útskýra hvers vegna fólk í siðmenntuðu þjóðfélagi greiðir 341 kr. fyrir sömu kjúklingabitana og við erum að borga 1.419 krónur fyrir. Í mínum huga er þetta ekki flókið og bara óskaplega einfalt, við eigum ekki að þurfa að borga einni krónu meira fyrir sömu vöru. Punktur!
P.s. þið megið endilega deila þessari grein svo ráðamenn sjái hana. En ég hef frétt af þeim erlendis að sleikja sólina á okurlaunum í okkar boði og taka tásumyndir sem þeir þora ekki að pósta af ótta við seðlabankastjóra.
Kjúklingabitar sem kosta 341 kr. seldir á 1.419 kr.
,,Ég hef ekki spurt FB vini mína um svona áður eða verslanakeðjur: Ég keypti þetta í Nettó áðan.. 300 gr. af kjúklingabitum… Það stendur skýrt á pakkningu 2 £ sem er í dag samtals 341 kr. enda ekki margir bitar. En Bretar bæta örugglega. vsk ofan á þetta, ólíkt því sem við gerum þegar vara er auglýst. Það er 12.5%. Það ætti að þýða samtals 384 IKR. fyrir þessa vöru en ekki 1419 kr. Við kassann greiddi ég fyrir þetta 1419 kr.
Vinir þessa heiðursmanns tóku undir athugasemd hans um verðlagninguna og ég leyfi mér hér með að birta helstu athugasemdir enda málið alvarlegt gagnvart íslenskum neytendum:
,,Þeir bæta ekki vsk ofaná þetta er verðið“
,,Var að gera samanburð þ.e félagi minn keypti 1,6kg af Entrecote nauti, í Costco, á tæplega 11 þúsund. Sjálfur verslaði ég 1,5kg af Ribeye hér í Köben á 6000 isk. Sláandi verðmunur“
,,Þessi vara er skattlögð af ríkinu til verndar ísl.landbúnaði, þetta ætti hver mannvitsbrekka að vita og sleppa því að fara með óhróður.“
,,Skýrir það allan muninn? þetta er 300%!“
,,Innflytjendur hafa aldrei látið lægra innkaupsverð koma neytendum á Íslandi til góða. Ég hef margoft bent á þennan mismun í atvinnuveganefnd meðan ég var þar. Þess vegna hræðist ég afnám tolla á matvöru því það mun aðeins skila meiru í fáa vasa.
,,Ég var að velta fyrir mér hvort þetta væri 2 pund á þyngd. En það er líklega ekki skýringin, þetta eru víst bara 300 grömm En svona er þetta, ódýrar matvörur frá útlöndum eru ekki lengur ódýrar þegar þær fjórfaldast í verði við að vera settar í hillu á Íslandi. Sama er víst með nautakjöt. Eftir að innflutningur á þvi varð umtalsverður hefur það hækkað meira í verði en annað kjöt. Það kemur neytendum sem sagt ekki til góða að það sé nú flutt inn í stórum stíl. Svona er þetta alltaf á Íslandi“
,,Takk fyrir að vekja máls á þessu. Við (@samkaup) höfum flutt inn vörur frá Bretlandi í mörg ár og síðust ár frá Iceland með góðum árangri. Við úrsögn Bretlands úr ESB breyttist hinsvegar landslagið og um langan tíma var bannað að flytja t.d. kjúkling inn frá þessu 3ja heims ríki eins og það er nú skilgreint. Eins er núverandi tollafyrirkomulag algjörlega úrelt og þjónar hvorki hagsmunum neytenda í lægra vöruverði, eins og ég hef farið yfir, né til að veita samkeppnislegt aðhald.
En nú að þessu dæmi með kjúklinginn. Tollagjöld eru tæplega 700 kr og við bætist 30% gjald sem reiknast af innkaupsverði vörunnar. Auk hárra verndartolla tolla á viðkomandi vöru, þá við Brexit, legst á auka gjöld við eftirlitskostnað, bæði í Bretlandi ásamt hér heima við innflutning á vörum sem innihalda dýraafurðir, þar sem Bretland er skilgreint sem 3ja heims ríki. Dýralæknir þurfi að votta sendingar frá Bretlandi sem og MAST að taka út sendinguna þegar hún berst til landsins. Svo þarf að flytja vöruna og loks ber hún 11% virðisaukaskatt. Svo erum við með okkar álagningu.
Með breytingu eða afnámi tolla, fyrirkomulagi og gjalda myndi þessi vara trúlega lækka um rúmlega 600 kr. en ég vil benda á sambærilegt dæmi sem hefur verið í umræðunni sem er kjúklingur frá Úkraínu. Við tókum tvær sendingar sem seldust upp enda var útsöluverð í Nettó verslunum okkar um 20% lægra en innkaupsverð okkar – 1.485 kr. á kíló af ferskum kjúklingabringum.“