Ársreikningar Akureyrarbæjar fyrir árið 2022 voru lagðir fram í bæjarráði í dag. Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar gekk í meginatriðum vel og var betri en gert hafði verið ráð fyrir. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 893 milljóna króna halla en niðurstaðan var neikvæð um 671 milljón króna. Vaxandi verðbólga og lífeyrisskuldbindingar settu mark sitt á uppgjörið. Sjóðstreymið var betra en árið áður.
Samstæða Akureyrarbæjar, þ.e. Aðalsjóður, Fasteignir Akureyrarbæjar, Eignasjóður gatna og Umhverfismiðstöð ásamt fyrirtækjum í eigu bæjarins, s.s. Félagslegum íbúðum, Strætisvögnum Akureyrar, Hlíðarfjalli, Hafnasamlagi Norðurlands og Norðurorku, var rekin með 671 millj. kr. halla. Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar gekk því ívið betur en áhorfðist því í fjárhagsáætlun hafði verið gert ráð fyrir 893 millj. kr. neikvæðri niðurstöðu.
Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 2.149 millj. kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 956 millj. kr. rekstrarafgangi. Meginskýringar á bættri afkomu eru hærri skatttekjur af útsvari og hærra framlag úr Jöfnunarsjóði ásamt auknum þjónustutekjum. Aukin verðbólga á liðnu ári setti hins vegar mikinn svip á rekstrargjöldin og voru fjármagnsgjöld og verðbætur 2.881 millj. kr. eða 1.077 millj. kr umfram áætlun. Lífeyrisskuldbindingar urðu einnig hærri en gert var ráð fyrir og námu alls 1.164 millj. kr. eða 364 millj. kr umfram áætlun.
Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 4.595 millj. kr. sem var 1.710 millj. kr. hærra en áætlað var. Sambærileg fjárhæð árið áður var 3.906 millj. kr. Handbært fé frá rekstri nam 4.251 millj. kr. Fjárfestingahreyfingar námu samtals nettó 2.726 millj. kr. en fjármögnunarhreyfingar námu samtals nettó -1.255 millj. kr. Afborgun langtímalána nam 1.358 millj. kr. Engin ný langtímalán voru tekin. Hækkun á handbæru fé á árinu nam 270 millj. kr. og var handbært fé samstæðunnar í árslok 3.485 millj. kr. Veltufé frá rekstri árið 2022 í hlutfalli við tekjur nam 15,08% í samstæðunni og 10,49% í A-hluta. Árið áður voru hlutföllin 13,74% í samstæðunni og 9,43% í A-hluta.
Heildarlaunagreiðslur með launatengdum gjöldum en án hækkunar lífeyrisskuldbindinga hjá samstæðunni voru 16.116. millj. kr. Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 1.445 sem er fækkun um 50 stöðugildi frá árinu áður. Laun og launatengd gjöld ásamt lífeyrisskuldbindingum samstæðunnar í hlutfalli við rekstrartekjur hennar voru 56,7%. Annar rekstrarkostnaður var 29,2% af rekstrartekjum. Skatttekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga voru 1.011 þús. kr. á hvern íbúa en tekjur voru samtals 1.533 þús. kr. á hvern íbúa. Árið 2021 voru skatttekjurnar 921 þús. kr. á hvern íbúa og heildartekjurnar 1.448 þús. kr. á hvern íbúa.
Niðurstaða rekstrar A-hluta var neikvæð um 826 millj. kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 1.296 millj. kr.
Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir sveitarfélagsins í árslok 2022 bókfærðar á 66.507 millj. kr. en þar af voru veltufjármunir 7.167 millj. kr. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum námu samkvæmt efnahagsreikningi 38.217 millj. kr. en þar af voru skammtímaskuldir 5.623 millj. kr.
Fjárhagur Akureyrarbæjar er traustur og nam skuldaviðmið samstæðunnar í árslok 84% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 86% árið áður. Skuldaviðmið í A-hluta var 58% í árslok en var 61% árið áður.
Veltufjárhlutfallið var 1,27 í árslok 2022 en var 1,34 árið áður. Bókfært eigið fé nam 28.290 millj. kr. í árslok en var 26.637 millj. kr. í árslok árið áður. Eiginfjárhlutfall var 43% af heildarfjármagni en 42% árið áður.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður hann til umfjöllunar í bæjarstjórn Akureyrar 18. apríl og 2. maí nk.
Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt lögum um reikningsskil sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða að meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum.
Sjá ársreikningin sem lagður var fram hér.