Topp 5 tilkynningar þessa vikuna hjá lögreglu eru þessar:
Tilraunir til að svíkja út fé af Íslendingum linnir ekki. Enda er þetta arðbær glæpastarfsemi. Lögreglu hefur borist óvenju mikið af tilkynningum frá því um síðustu helgi. Netsvikarar eru oft sérstaklega virkir yfir langar helgar því þá líður lengri tími áður en bankar opna og hægt að reyna að endurheimta fjármuni.
Það sem við erum að fá flestar tilkynningar um þessa viku eru ólíkar.
1. Fjárkúgun:
Við höfum hakkað netfangið þitt, síma og raftæki. Og setti svo Trójuhestavírus…
Þetta eru afar óþægileg skilaboð og byggja á þeirri vitneskju að það er hægt að hakka sig inn í tölvur. En þetta er annað, þetta er fjölpóstur sendur út í þúsundatali og þeir segjast hafa gert þetta en í raun hefur ekkert gerst. Pósturinn er sendur út til að hræða viðtakanda og gera móttakanda stressaðan og vonast til þess að í því hugarástandi sendi svikurum peninga.
Ef þið fáið svona póst þá er EKKERT AÐ ÓTTAST. Þetta er mjög einföld svikaleið. Hún virkar ekki oft en þeir senda út tugþúsundir svona pósta.
2. Pakki frá póstinum, DHL eða álíka
Þetta er búið að vera í gangi mjög lengi. Tilkynning um pakka, tengill, skrá inn greiðslukort og samþykkja, nema í staðinn fyrir að borga litla upphæð er búið að taka 200.000 kr. af kortinu. Og sá sem samþykkir öryggiskóðan situr uppi með kostnaðinn.
Verið mjög á varðbergi fyrir öllum skeytum sem leiða ykkur áfram í að borga og deila kortaupplýsingum. Skoðið mjög vel hver sendandinn er og á hvaða síður er verið að leiða ykkur. Takið ykkur tíma og skoðið þetta vel. Kynnið ykkur líka hvernig þetta fer fram eðlilega. Pósturinn sendir aldrei svona skeyti. Ef þið eruð í vafa, sendið á okkur – abendingar@lrh.is
3. Dómkvaðning eða sekt í nafni lögreglunnar ásamt Interpol/Europol o.s.frv.
Þetta eru ógeðfeldir póstar sem saka móttakanda fyrir að vera viðriðinn barnaklám og mansal. Viðtakanda er boðið að greiða sekt sem er á bilinu 500.000 til 1.278.389 kr. eða viðkomandi verður handtekinn og færður fyrir dómara. Þessi póstur eins og í nr. 1 er sniðinn til að skapa hræðslu og stress og að í því hugarástandi fá fólk til að senda þeim peninga. Þetta hefur komið í hrinum og þetta er nýjasta bylgjan.
Alls ekki hafa áhyggjur ef þið fáið svona póst. Því miður er mjög auðvelt að stela einkennum og vörumerkjum og búa til svona pósta og nær ómögulegt að stoppa þá alveg. En við erum með rannsókn á þessu og erum að loka á möguleikanna til að glæpamennirnir fái peninga.
4. Einn klassískur – Kæri sigurvegari, á þessu ári vannstu 1,8 milljónir dala.
Þetta er bara nútíma útgáfa af Nígeríubréfi. Það vinnur engin neitt á þennan hátt. Sendið alla svona pósta beint í ruslið. Við værum varla að nefna það nema að það komu inn óvenju margar tilkynningar núna. Stundum er textinn betur fóðraður, eins og með „stjórn Peningamálaeiningar Sameinuðu þjóðanna“ eða að Kristalina Georgieva hjá alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé að senda póstinn en þetta er alltaf svindl.
5. Símtal eða facebook auglýsing frá „fjárfestum“
Þetta er aðeins flóknara, fólk fær símtal úr íslensku númeri og þar er einhver sem vill kynna fjárfestingarsjóð. Þetta sama svindl tröllríður í auglýsingum á Facebook. Símanúmerabirtingin notar ákveðna tækni þannig að íslenskt símanúmer birtist þó svo að hringingin sé alls ekki frá Íslandi. Auglýsingarnar að sama skapi notast við stolnar myndir af heimsfrægu fólki eða þekktum Íslendingum. Allt miðar að því að draga fólk inn í vandaða og skipulagaða svikamyllu þar sem allt lítur vel út á yfirborðinu. Nýjast svindlið notar síðuna litgraphs.com en sú síða hefur aðeins verið uppi í 53 daga og það er falið hver stendur á bakvið hana. En hún lítur út eins og fjárfestingafélag en er bara plat. Þetta eru vönduð og fagmannleg svik. Þeir hafa „þjónustufulltrúa“ sem vilja allt fyrir ykkur gera og setja jafnvel upp forrit til að stýra tölvum þess sem er verið að svíkja.
Ekki falla fyrir svona gylliboðum. Við erum með nokkra tugi einstaklinga á Íslandi sem hafa tapað tugum milljóna á þess konar svindli.
Farið varlega og munið að netöryggi byrjar á ykkur sjálfum.