Fjögur mál eru til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tengd innflutningi á kókaíni. Alls voru níu handteknir en sex sitja í gæsluvarðhaldi. Ríkisútvarpið fjallaði ítarlega um málið.
Fjögur mál tengd innflutningi á kókaíni eru til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Handtökur fóru fram á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku og vikunni þar á undan. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og tollgæslunnar í aðgerðum sínum. Alls voru níu handteknir en sex sitja nú í gæsluvarðhaldi. Í hópi hinna handteknu eru bæði íslenskir og erlendir ríkisborgarar.
Samtals var lagt hald á tæp sjö kíló af kókaíni í aðgerðunum. Ýmsum aðferðum var beitt við innflutning efnanna. Meðal annars voru póst- og hraðsendingar notaðar sem og burðardýr.
160 kíló af hassi í skútu
Til rannsóknar er einnig mál þar sem fíkniefni voru haldlögð í skútu fyrir utan Reykjanes. Í því máli sitja enn þrír í gæsluvarðhaldi. Lögreglan upplýsti nú að í skútunni hafi verið lagt hald á tæplega 160 kíló af hassi. Lögreglu grunar að hassið hafi verið flutt frá Danmörku og ætlaður áfangastaður hafi verið Grænland.