Erlent flutningaskip tók niðri við Akurey um klukkan þrjú í dag þegar skipið var á leið frá Reykjavík. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var þegar gert viðvart. Grunur lék á að mengun kæmi frá skipinu og var séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar á varðbátnum Óðni kölluð út til að kanna aðstæður. Þá var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út til að kanna aðstæður úr lofti.
Athugunin leiddi í ljós að þunn olíubrák reyndist vera á svæðinu og var ákveðið að flutningaskipið héldi til hafnar í Reykjavík þar sem mengunarvarnargirðing verður sett umhverfis skipið. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins mun draga olíuvarnargirðinguna umhverfis flutningaskipið ásamt séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar. Umhverfisstofnun hefur verið gert viðvart og rannsókn á tildrögum atviksins er í höndum rannsóknarnefndar samgönguslysa.