Bubbi Morthens er mjög óánægður með hvernig Íslandi er stjórnað af ráðamönnum. Sérstaklega er hann ósáttur með einkavæðingu náttúruauðlinda og gjafakvótakerfið því tengdu sem og hvernig fáir sölsa allt undir sig á kostnað fjöldans.
Allt snýst þetta í raun um völd og pening
Aurgoðar eignast laxveiðiárnar okkar, jarðir og vatn. Aurgoðar eignast firðina okkar og þorp, eyða lífríkinu í hafinu og menga árnar. Það mun leiða til þess að íslenski laxinn mun hverfa. Kvótagreifar eignast fjölmiðil og fyrirtæki útum allt og ítök þeirra snerta alla fleti. Þingmenn okkar hugsa um sitt og reyna að rugga bátnum sem minnst.
Fjögur ár er ekki langur tími. Ráðherrar okkar velja sín verkefni, berjast til dæmis fyrir Kristján Loftsson svo hann geti viðhaldið hvaladrápum sínum. Allt snýst þetta í raun um völd og pening og allt er þetta neikvætt sem ég hef talið hér upp.
Auðvitað gera þingmenn og ráðherrar líka fullt af flottum hlutum, skárra væri það nú, en skeytingarleysi þeirra gagnvart náttúrunni er með ólíkindum og þögn þeirra gefur í skyn að það að skipta sér af gæti kostað þá völd og pening.
Þannig að þeir munu alltaf velja sjálfa sig og verja sig. Þeir eru tilbúnir til að fórna lífríkinu, fórna ásýnd fjarðanna, lífríkinu sem þar er að finna, líta undan þó að íslenski laxinn sé í húfi. Allt vegna þess að flokkurinn krefst þess. Og þeir meta magann sinn og launatékkinn meira en það að rugga bátnum. Við þurfum flokk fyrir næstu kosningar sem er tilbúinn til að setja náttúruna í fyrsta sæti og rugga öllum bátum.