Dagbjört Rúnarsdóttir virðist hafa pyntað mann til bana í Bátavogi í september. Áverkar sem hann hlaut voru nægilega veigamiklir til að valda andláti.
Dagbjört Rúnarsdóttir, sem hefur verið ákærð fyrir að hafa orðið manni að bana í Bátavogi 23. september, virðist hafa pyntað hann til dauða.
Myndbands- og hljóðupptökur sem teknar voru á síma hennar og mannsins bera það með sér að hún hafi vísvitandi beitt hann líkamsmeiðingum og grimmilegri meðferð í aðdraganda andláts hans. Brotin sem hún er grunuð um varða allt að 16 ára fangelsi. Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði sem birtur var á vef Landsréttar í morgun.
Fjöldi myndbanda og hljóðupptaka höfðu verið teknar á síma Dagbjartar og mannsins 22. og 23. september. Myndefnið er um tvær og hálf klukkustund að lengd og nær yfir tímabil frá hádegi á föstudeginum 22. september til rúmlega eitt 23. september. Í myndböndunum megi sjá og heyra Dagbjörtu valda manninum ítrekuðum líkamsmeiðingum, líkamlegum sársauka og þjáningu.
Áverkarnir nægilegir til að valda dauða
Við réttarkrufningu mannsins komu í ljós miklir áverkar, dreifðir víðsvegar um líkamann og þónokkur beinbrot, meðal annars í nefi, hálsi, fingrum, rifbeinum og sköflungi. Töluverð innvortis blæðing hafi verið í axlarvöðvum og lærvöðva. Útlit áverkanna bendir til þess að þeir hafi komið við aðför annars einstaklings að honum í formi högga eða sparka í andlit, klof og búk, höggs í vinstri fótlegg og taks um hálsinn.
Áverkarnir skýrast ekki af eigin slysni heldur bendir allt til að þeir hafi verið til komnir við árás annars. Jafnframt kemur fram að ákverkarnir séu nægilega veigamiklir til að valda dauða.
Álit réttarlæknis er að áverkarnir hafi langflestir komið til skömmu fyrir dauða mannsins eða um sólarhring áður. Rannsóknargögn málsins benda til þess að Dagbjört hafi á þeim tíma veist með obeldisfullum hætti að manninum. Hann var með áverka á munnsvæðinu, hálsinum og efri hluta líkamans, sem og gervörtum, kynfærum og höndum.
Þó að réttarlæknisfræðilegri rannsókn málsins sé ekki lokið bendir hún á þessu stigi til þess að maðurinn hafi dáið vegna áverkanna og afleiðinga þeirra þó svo að dánarorsök hafi ekki fyllilega verið staðfest.