Í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins og annarra samkeppniseftirlita á Norðurlöndum er fjallað um hvernig samkeppnishamlandi samstarf á meðal fyrirtækja getur haft skaðleg áhrif á kjör launafólks sem og neytendur. Þá er að finna í skýrslunni umfjöllun um hvernig samráð á milli fyrirtækja sem snertir starfsfólk þess getur farið gegn samkeppnislögum.
Er þar sérstök áhersla lögð á samráð fyrirtækja um laun starfsfólks sem og samráð fyrirtækja um að ráða ekki starfsfólk hvers annars. Á það ber hér þó að minnast að samkeppnislögin taka ekki til launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum. Þegar slíkum samningum sleppir eiga samkeppnislögin eðli máls samkvæmt við.
Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins:
„Á tímum umtalsverðra verðlagshækkana er mikilvægt að launafólk geti gengið að því að fyrirtæki eigi ekki í ólögmætu samráði um kjör þess með neikvæðum afleiðingum á til að mynda laun eða möguleika þeirra til þess að bæta kjör sín með því að skipta um starf. Hefur samráð sem þetta einnig þau áhrif að vinnuafl leitar ekki þangað þar sem þörfin eftir því er sem mest sem getur haft neikvæð áhrif á markaði og nýsköpun á þeim.“
Framkvæmd í Evrópu sem og í Bandaríkjunum bendir til aukinnar áherslu samkeppniseftirlita á að uppræta samráð fyrirtækja er snertir starfskjör starfsfólks sem og samráð um að ráða ekki starfsfólk keppinauta. Tilgangur slíks samráðs er m.a. vinna gegn hækkun á launum. Hafa samkeppnislagabrot sem þessi verið upprætt og viðkomandi fyrirtæki sektuð. Í skýrslunni er fjallað um áhrif þessa í Norrænu samhengi en vinnumarkaðirnir á Norðurlöndunum eru talsvert frábrugðnir í alþjóðlegum samanburði, en þar hefur mikil þátttaka í stéttarfélögum og atvinnugreinasamtökum áhrif.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Skýrslan varpar ljósi á eina ástæðu þess að virk samkeppni og samkeppnisreglur eru mikilvægar fyrir hagsmuni launafólks og almennings. Alþekkt er að virk samkeppni stuðlar að lægra verði og betri þjónustu. Til viðbótar eru samkeppnisreglur til þess fallnar að vinna gegn því að kjör launafólks og möguleikar þess á vinnumarkaði séu ekki skertir. Jafnframt er mikilvægt að hugað sé að því í hverju tilviki hvort samrunar fyrirtækja séu til þess fallnir að skaða hagsmuni launafólks með óeðlilegum hætti. Þá er virkt eftirlit með verðsamráði og öðrum samkeppnishömlum nauðsynlegt til að stuðla að því að umsamdar kjarabætur í kjarasamningum bæti í raun hag launfólks.“
Bakgrunnsupplýsingar:
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 taka lögin ekki til launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum. Hið sama felst í samkeppnisreglum EES-samningsins sem gilda hér á landi. Er fyrirtækjum aðeins heimilt að hafa með sér samstarf um atriði sem falla undir meginmarkmið kjarasamninga er varðar kjör og starfskilyrði launþega, sbr. dóm EFTA-dómstólsins frá 19. apríl 2016. Þegar slíkum opinberum kjarasamningum sleppir eiga samkeppnisreglu eðli máls samkvæmt við um t.d. samskipti og samninga milli fyrirtækja sem varðað geta starfskjör. Í því felst t.d. að samningar eða samskipti fyrirtækja sem eru til þess fallin að rýra kjör sem samið hefur verið um í kjarasamningum, geta falið í sér brot á samkeppnislögum.
Í framkvæmd hér á landi hefur reynt á samkeppnishömlur sem tengjast með beinum hætti kjörum starfsmanna. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 33/2023 , Brot Samskipa gegni banni við ólögmætu samráði, er lýst ólögmætu samráði sem fól í sér samskipti fyrirtækja um hvort greiða skyldi starfsmönnum þeirra hærri laun en mælt var fyrir um í kjarasamningum. Í máli sem endaði með dómum Hæstaréttar á árinu 2016 höfðu olíufélögin t.d. ólögmætt samráð um það hversu háa fjárhæð skyldi gefa starfsmönnum fyrirtækjanna í jólagjöf.