Leigubílstjórinn sem grunaður er um gróft kynferðisbrot gegn konu í byrjun mánaðarins, í félagi við annan mann, hélt áfram að keyra leigubíl eftir að honum var sleppt úr haldi. Þetta staðfestir Sigtryggur Arnar Magnússon, eigandi City Taxi, leigubílstöðvarinnar þar sem hinn grunaði vann, við rúv.is.
Sigtryggur segir útilokað að samgönguyfirvöld geti kannað tíu ára bakgrunn allra erlendra bílstjóra. Leigubílstjórinn og félagi hans eru grunaðir um að hafa brotið á konu sem var farþegi í bíl hans. Hann var handtekinn í leigubílaröðinni á Keflavíkurflugvelli tveimur dögum eftir að brotið á að hafa átt sér stað.
Mennirnir voru ekki úrskurðaðir í gæsluvarðhald
Hinir grunuðu eru báðir erlendir ríkisborgarar sem hafa samkvæmt heimildum fréttastofu rúv.is búið hér á landi í um tvö ár og fengið alþjóðlega vernd hér á landi.
Sigtryggur hjá City Taxi segist ekki hafa vitað að maðurinn hafi ekið á hans vegum fyrr en fréttamaður á Vísi hafði samband við hann. Hann hafi sent uppsögn til Samgöngustofu um leið og hann frétti af meintu broti.
„Ég fékk að sjá mynd af bílnum og við tókum tækið, taxamerkið og myndina í afturglugganum og sendum uppsögn til Samgöngustofu, bara strax. Ég vil geta treyst því að börn mín og barnabörn geti tekið leigubíla hvar og hvenær sem í höfuðborginni,“ segir Sigtryggur í viðtali við rúv.is.
Nú hafa allir þessir leigubílstjórar menntun hér á Íslandi og þurfa að taka próf og væntanlega leggja fram sakavottorð?
„Ríkislögreglustjóri á að kanna tíu ára bakgrunn hvers bílstjóra. Hann á líka að kanna hvort þeir skuldi skatta í sínu heimalandi. Og það er útilokað að það sé hægt að fara eftir þessum reglum sem Samgönguráðuneytið setti.“