Útgáfa á nýjum nafnskírteinum er hafin hjá Þjóðskrá Íslands í takt við auknar öryggiskröfur sem gerðar eru til persónuskilríkja. Nýju nafnskírteinin eru fullgild persónuskilríki og geta íslenskir ríkisborgarar í öllum aldri sótt um nafnskírteinin og notað þau til auðkenningar.
Einnig verður hægt að sækja nafnskírteini sem ferðaskilríki sem hægt verður að nota innan EES-svæðisins. Hægt verður að sækja um nýju nafnskírteinin frá og með 1. apríl nk. hjá Sýslumönnum en erlendis hjá sendiráðum og aðalræðisskrifstofum. Þjóðskrá ber ábyrgð á útgáfu og afhendingu nafnskírteina.
Aukið öryggi og nýtt útlit
Með nýrri útgáfu nafnskírteina er öryggi þeirra aukið í samræmi við auknar samevrópskar kröfur til persónuskilríkja. Nafnskírteinin verða einnig í uppfærðu útliti og í handhægri stærð. Útlit nafnskírteinanna byggir á nýjum alþjóðlegum staðli og er Ísland fyrsta landið í heiminum sem gefur út skilríki samkvæmt honum. Helsta breytingin er að andlitsmynd er mun stærri sem auðveldar allan samanburð við handhafa kortsins.
Útgáfa nafnskírteina byggir á nýlegum lögum um nafnskírteini frá 2023 en með þeim var innleidd Evrópureglugerð um öryggi persónuskilríkja og ferðaskilríkja. Með innleiðingunni hefur Þjóðskrá uppfyllt kröfur um að ný nafnskírtein séu í samræmi við önnur Evrópulönd.
Eldri nafnskírteini gefin út fyrir 1. janúar 2013 féllu úr gildi þann 1. desember 2023 með gildistöku nýju laganna. Eldri nafnskírteini sem gefin voru út eftir þann tíma og fram til 1. mars 2024 falla úr gildi 31. desember 2025.
Nafnskírteini sem ferðaskilríki
Íslenskum ríkisborgurum stendur einnig til boða að sækja um nafnskírteini sem ferðaskilríki. Nafnskírteinum sem eru ferðaskilríki er hægt að framvísa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í stað þess að framvísa vegabréfi. Nafnskírteinin staðfesta handhafa kortsins og ríkisfang. Skírteinin eru með örgjörva líkt og vegabréf og fylgja alþjóðlegum stöðlum og ESB-reglugerð.
Munurinn á nafnskírteinum sem ferðaskilríkjum og vegabréfum, er að vegabréf gilda sem ferðaskilríki til allra landa í heiminum en nafnskírteinin gilda innan landa EES.
Nafnskírteini sem ekki eru ferðaskilríki, gilda sem persónuskilríki og staðfesta persónu handhafa. Nafnskírteinin sýna ekki ríkisfang og eru ekki gild sem ferðaskilríki.
Vegabréf og nafnskírteini eru einu löggildu skilríkin sem eru gefin út á Íslandi. Einnig er hægt að framvísa nafnskírteinum til að sækja um rafræn skilríki.
Að sækja um nafnskírteini
Sækja þarf sérstaklega um nýju nafnskírteinin. Sótt er um hjá Sýslumönnum eða í sendiráðum og á aðalræðisskrifstofum erlendis líkt og gert er með vegabréf. Afgreiðslutími nafnskírteina er sá sami og vegna vegabréfa eða allt að sex virkir dagar.
Þótt umsækjandi eigi gilt vegabréf með mynd þarf viðkomandi samt að mæta í eigin persónu á umsóknarstað bæði innanlands og erlendis til að sækja sérstaklega um nafnskírteini. Ekki er hægt að nota sömu mynd og er í vegabréfi.
Verð fyrir nafnskírteini er 4.600 kr. fyrir börn, öryrkja og aldraða og 9.200 kr. fyrir einstaklinga 18 ára og eldri. Sama verð er fyrir nafnskírteini hvort sem þau eru sem ferðaskilríki eða ekki.