Dómstóll í Noregi dæmdi í dag Zaniar Matapour í 30 ára fangelsi fyrir að drepa tvo og særa 20 í hryðjuverkaárás í aðdraganda gleðigöngu í Osló fyrir tveimur árum. Þetta er í samræmi við kröfu saksóknara og er þyngsti dómur í sögu Noregs.
Ríkisútvarpið fjallaði um málið og þar kemur fram að verjandi Matapour hélt því fram að skjólstæðingur hans væri veikur á geði og krafðist sýknu. Hann segist líklega munu mæla með því við skjólstæðing sinn að hann áfrýi dómnum.
Matapour var sóttur til saka fyrir brot á hegningarlögum fyrir hryðjuverk samkvæmt nýjum norskum, þar sem refsiramminn fyrir slíkt brot er á bilinu 20 til 30 ár. Þau tóku gildi árið 2015 en frá árinu 1981 hafði hámarksrefsing í Noregi verið 21 ár í fangelsi, eftir að lífstíðarfangelsi var afnumið.
Þyngri dómur en sá sem Breivik hlaut vegna nýrra hegningarlaga
Nýju hegningarlögin höfðu ekki tekið gildi þegar Anders Behring Brevik hlaut dóm fyrir hryðjuverkaárás í Útey árið 2011. Hlaut hann því þyngsta dóm sem hann gat hlotið á sínum tíma, 21 ár í fangelsi.
Sá dómur vakti þónokkra umræðu víða um heim og þótti vægur en var þá ekki tekið með í reikninginn að eftir 21 ár má framlengja dvöl fangans um 5 ár í einu ítrekað. Getur dómurinn því talist lífstíðardómur að því er fram kemur í fréttinni.