Laust fyrir miðnætti í gær var lögreglu tilkynnt um alvarlega líkamsárás í miðborginni þar sem hnífi var beitt. Þrír voru með stunguáverka og voru allir fluttir á bráðamóttöku Landspítalans til aðhlynningar.
Ástand eins hinna slösuðu er alvarlegt og gekkst hann undir aðgerð í nótt. Sá sem grunaður er um verknaðinn var handtekinn og verður yfirheyrður síðar í dag. Brotaþolar og hinn grunaði eru allt ungt fólk og rannsóknin unnin í samvinnu við barnaverndaryfirvöld.
Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um aðra líkamsárás þar sem hnífi var beitt. Sá sem grunaður er um hnífsstunguna var handtekinn og verður yfirheyrður síðar í dag. Brotaþoli í málinu er ekki alvarlega slasaður.
Rannsókn beggja þessara mála er á frumstigum en miðar vel. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um þessi mál á þessu stigi.