Tollinum verður heimilt að leita í innrituðum farangri farþega og áhafnar að viðkomandi fjarstöddum, samkvæmt nýju frumvarpi fjármálaráðuneytisins. Frumvarpið kveður á um auknar heimildir tollgæslunnar til eftirlits.
Þetta kemur fram í frumvarpsdrögum sem birt hafa verið í samráðsgátt og Morgunblaðið greinir frá í dag. Þar segir að jafnframt að ávallt beri að tilkynna eigendum farangursins að leitað hafi verið í farangrinum, til dæmis með því að setja kvittun í hann.
Þá er einnig lagt til að tekinn verði í notkun svokallaður lágskammta röntgenskanni, sem virkar þannig að þeir farþegar, sem til dæmis eru grunaðir um fíkniefnasmygl og þurfa að afklæðast, fái í staðinn að fara í gegnum skannann, án þess að afklæðast.
Sömuleiðis eiga tollyfirvöld að fá aðgang að rafrænni vöktun og upptökum úr myndavélum á svæðum þar sem viðhafa á tolleftirlit, á flugvöllum og á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur.
Tollurinn hefur leitað á 1625 manns í ár. Þar af gengust 172 undir líkamsleit og 55 þeirra voru sendir í tölvusneiðmyndatöku. 22 þeirra reyndust vera með fíkniefni.