Við búum við veruleikafirrta efnahagsstjórn sem mælir velgengni samfélagsins á stöðu og styrk bankanna. Þetta hefur margoft komið fram í málflutningi Seðlabankastjóra og fjármálaráðherra.
Á meðan heimilum landsins blæðir eru hreinar vaxtatekjur Landsbankans 44,1 milljarður króna fyrstu 9 mánuði ársins, eða sem nemur um fimm milljörðum á mánuði. Arðsemin var 11,7%, samanborið við 10,5% í fyrra.
Til samanburðar var áætlaður kostnaður við uppkaup á húsnæði Grindvíkinga 60 milljarðar. Hreinar vaxtatekjur Landsbankans voru 73,5% af þeirri upphæð. Einn BANKI! Fyrstu 9 MÁNUÐI ársins!
Á meðan veislan stendur sem hæst eru vanskil að aukast
Á meðan veislan stendur sem hæst eru vanskil að aukast, útborguð lágmarkslaun eru lægri en leiga á þriggja herbergja íbúð og fólk með stökkbreytt húsnæðislán borgar hundruð þúsunda í vexti og nokkra þúsundkalla í afborgun. Vitskert er veröld þessa fólks!
Sérhagmunagæslan og spillingin á sér bandamenn í hverju horni opinberra stofnann
Ef einhver hefur einhverntíma verið í vafa um vegferð Seðlabankans í hagsmunagæslu sinni fyrir fjármagnseigendur þá hlýtur sá vafi að hverfa eftir þetta útspil.
Að auka heimildir lífeyrissjóða til afleiðuviðskipta og skortsölu afhjúpar endanlega vegferð Seðlabankans.
Lífeyrissjóðirnir okkar voru notaðir sem mótaðilar í fordæmalausum afleiðusamningum fyrir hrun og kostuðu sjóðfélaga milljarða tugi. Samningar sem tryggðu nokkrum af helstu hrunverjum gríðarlega sterka stöðu við að halda eftir eignum og fyrirtækjum í eftirmálum hrunsins.
Það getur verið erfitt fyrir venjulegt fólk að skilja hvað þetta þýðir en það eru ærnar ástæður fyrir því að sjóðunum er bannað, að mestu, að stunda slík viðskipti.
Þetta hefur sannanlega verið reynt áður, að breyta lögum í þessa átt, en þökk sé fyrrum þingmönnum eins Frosta Sigurjónssyni sem kom í veg fyrir það.
Þetta er með svo miklum ólíkindum þetta samfélag okkar, þar sem sérhagmunagæslan og spillingin á sér bandamenn í hverju horni opinberra stofnanna.