Þann 28. október 2024 kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp þrjá úrskurði vegna útgáfu Matvælastofnunar á tveimur rekstrarleyfum í Ísafjarðardjúpi og einu rekstrarleyfi í Patreks- og Tálknafirði.
Úrskurðarnefndin felldi úr gildi hluta af rekstrarleyfi sem Matvælastofnun gaf út þann 29. febrúar 2024 til Arctic Sea Farm fyrir 8000 tonna hámarkslífmassa af regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi á þremur svæðum, Arnarnesi, Kirkjusundi og Sandeyri, þar af 5.200 tonnum af frjóum laxi. Felld var úr gildi ákvörðun um heimild til að stunda sjókvíaeldi á eldissvæðunum við Arnarnes og Kirkjusund, en ákvörðunin stofnunarinnar um veitingu leyfis til að stunda sjókvíaeldi við Sandeyri stendur óröskuð.
Jafnframt felldi úrskurðarnefndin úr gildi rekstrarleyfi sem Matvælastofnun gaf út þann 21. maí 2024 til Arnarlax fyrir 10.000 tonna hámarkslífmassa af ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi á þremur svæðum, Óshlíð, Eyjahlíð og Drangsvík.
Þá hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um að ógilda ákvörðun Matvælastofnunar um að endurnýja rekstrarleyfi sem stofnunin gaf út þann 21. mars 2024 til Arctic Sea Farm fyrir 7.800 tonna hámarkslífmassa af ófrjóum laxi í Patreks- og Tálknafirði, þ.m.t. með nýrri staðsetningu eldissvæðis við Kvígindisdal og breytingu á hvíldartíma.
Kærur vegna rekstrarleyfa í Ísafjarðardjúpi.
Eigendur jarðarinnar Sandeyri, Hábrún hf. sem stundar sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi og hópur hagsmunaaðila á svæðinu kærðu ákvarðanir um útgáfu leyfa í Ísafjarðardjúpi til úrskurðarnefndarinnar. Í kærunum var byggt á að útgáfa leyfanna bryti í bága við réttindi kærenda, þ.m.t. að hnit eldissvæða hefðu ekki verið tilgreind í rekstrarleyfi, að fjarlægð eldissvæðanna við starfsstöðvar kærenda ógnaði heilbrigði og velferð eldisfiska og rekstrargrundvelli, að eldissvæðið við Sandeyri og önnur svæði skertu útsýni, sem og sjón-, hljóð, lyktar- og efnamengun sem rýrði verðmæti eigna, að siglingaöryggi væri ógnað, að strandsvæðaskipulag hafi verið rangt og ófullnægjandi, að leyfisveitingin hafi verið í ósamræmi við lög um mannvirki og lög um menningarminjar, að nýtt áhættumat erfðablöndunar skv. lögum um fiskeldi hafi ekki legið fyrir, brotið hafi verið í bága við meginreglum umhverfisréttar skv. lögum um náttúruvernd og að annar leyfishafinn hafi borið ábyrgð á stærstu slysasleppingu hérlendis. Þá sneri kæra að því að skilyrði fyrir meðferð umsóknar skv. lögum um fiskeldi hafi ekki verið staðar, þar sem frummatsskýrslur hefðu ekki verið lagðar fram fyrir 19. júlí 2019.
Í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar segir að skoða verði fyrirmæli reglugerðar um hnitsetningu m.a. af því að greinarmunur er á útgáfu rekstrarleyfa og gildistöku þeirra, svo og þar sem hnit sjókvíaeldisstöðva liggja fyrir í stöðvarskírteini sem er jafnframt forsenda þess að leyfishafa sé heimilt að setja út fisk eða seiði.
Að virtri greinargerðinni í heild sinni þótti sýnt að Matvælastofnun hafi í samræmi við lög um umhverfismat kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og lagt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar til grundvallar.
Úrskurðarnefndin taldi að ekki hefði verið tilefni til að bíða eftir nýju áhættumati erfðablöndunar og ekki verið litið fram hjá því að í lögum um fiskeldi sé kveðið á um að eldra áhættumat sé í gildi þar til nýtt hafi verið staðfest.
Að teknu tilliti til umfjöllunar um siglingaöryggi í greinargerð leyfisveitanda, sem byggði á strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði og áhættumati siglinga, sem síðar var til komið, yrði undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki talinn haldinn annmarka hvað snertir forsvaranlegt mat á siglingum og siglingaöryggi vegna hinnar heimiluðu starfsemi varðandi eldissvæðin Arnarnes, Kirkjusund, Sandeyri, Eyjahlíð og Drangsvík. Úrskurðarnefndin taldi að ekki yrðii litið hjá svo afdráttarlausri neikvæðri afstöðu til áhrifa á siglingaöryggi sem finna má í áhættumati fyrir eldissvæðið Óshlíð, þar sem engar mögulegar breytingar eða mótvægisaðgerðir eru taldar auðsæjar, á svæði þar sem skipaumferð er umtalsverð. Yrði að telja að ekki hafi verið skilyrði til að gefa út rekstrarleyfi sem heimili fiskeldi á svæðinu við Óshlíð.
Úrskurðarnefndin taldi ekki þörf á útgáfu byggingarleyfis fyrir sjókvíar áður en rekstrarleyfi fyrir fiskeldi er gefið út og ekki yrði fallist á að leyfið bryti í gegn lögum um menningarminjar.
Úrskurðarnefndin taldi ekki annmarka á leyfisveitingunni er vörðuðu sjónarmið um smitvarnir og smitvarnaráætlun.
Úrskurðarnefndin taldi að teknu tilliti til þeirra sérstöku aðstæðna sem eru í Ísafjarðardjúpi, þar sem eru starfandi fleiri rekstraraðilar fiskeldis samtímis en í öðrum fjörðum eða hafsvæðum hér við land, yrði að telja það til annmarka á undirbúningi ákvörðunarinnar um útgáfu leyfanna varðandi sjónarmið um skilgreiningu eldissvæða og að samræma yrði skilyrði um útsetningu seiða, slátrun og hvíld svæða fyrirtækja í Ísafjarðardjúpi og innfjörðum hans.
Þá sagði í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar að Matvælastofnun væri skylt að taka rökstudda afstöðu til sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar. Að áliti úrskurðarnefndarinnar yrði ekki ráðið af greinargerð stofnunarinnar að nokkurt heildstætt vegið mat hafi farið fram á þeirri auknu áhættu af útbreiðslu dýrasjúkdóma og sníkjudýra sem leitt gæti af því að veita greinda undanþágu frá þeirri viðmiðun um 5 km fjarlægðar milli ótengdra aðila. Yrði af þeirri ástæðu og með vísan til þeirra ríku skyldna sem hvíla á Matvælastofnun við útgáfu leyfa til framkvæmdar sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum, að fella ákvarðanir úr gildi hvað varðar þau tvö eldissvæði í leyfi til Arctic Sea Farm, þ.e. Arnarnes og Kirkjusund og leyfi Arnarlax að öllu leyti.
Kærur vegna rekstrarleyfis í Patreks- og Tálknafirði.
Tveir aðilar kærðu útgáfu leyfisins og var talið að Veiðifélaga Blöndu og Svartár og Veiðifélags Hrútafjarðarár og Síkár hefðu kæruaðild.
Kærendur byggðu á að endurskoða hefði þurft umhverfismat framkvæmdarinnar, að hnit eldissvæðanna hefðu ekki verið tilgreind í leyfi, að Matvælastofnun hefði verið skylt að tryggja að minnsta fjarlægð milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila skv. meginviðmiði sé eigi styttri en 5 km., að siglingaöryggi sé ógnað, brotið hafi verið í bága við meginreglum umhverfisréttar skv. lögum um náttúruvernd, að leyfishafi hafi borið ábyrgð á á stærstu slysasleppingu hérlendis, að leyfisveitingin hafi verið í andstöðu við lög um mannvirki og byggingarleyfis hafi ekki verið aflað, að strandsvæðaskipulag Vestfjarða hafi verið ófullnægjandi sem og umhverfismat framkvæmdarinnar.
Í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar segir að Matvælastofnun bæri við endurnýjun leyfa að endurmeta hvort leyfishafi uppfyllti kröfur laga um heilbrigði dýra og afurða auk krafna um velferð dýra. Þá segir að skoða verði fyrirmæli reglugerðar um hnitsetningu m.a. af því að greinarmunur er á útgáfu rekstrarleyfis og gildistöku þess, svo og þar sem hnit sjókvíaeldisstöðva liggja fyrir í stöðvarskírteini sem er jafnframt forsenda þess að leyfishafa sé heimilt að setja út fisk eða seiði.
Úrskurðarnefndin taldi að Matvælastofnun hefði sinnt þeirri skyldu sinni að ganga úr skugga um að umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru um heilbrigði lagareldisdýra og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum og um velferð lagareldisdýra. Úrskurðarnefndin taldi stríða gegn óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um jafnræði ef stjórnvald fjallaði einangrað um hvernig viðmið um fjarlægð milli eldisstöðva lúta að rekstri eins aðila ef sambærilegur rekstur annars aðila á sama svæði er ekki jafnhliða til meðferðar, en slíkri endurskoðun yrði ekki komið við í kærumálinu.
Úrskurðarnefndin taldi að ekki hefði verið tilefni til að bíða eftir nýju áhættumati erfðablöndunar og eigi verið litið fram hjá því að í lögum um fiskeldi sé kveðið á að eldra áhættumat sé í gildi þar til nýtt hafi verið staðfest.
Úrskurðarnefndin taldi ekki þörf á útgáfu byggingarleyfis fyrir sjókvíar áður en rekstrarleyfi fyrir fiskeldi er gefið út.
Þá taldi nefndin ekki annmarka hafi verið til að dreifa sem varðað gæti ógildingu leyfis vegna sjónarmiða sem lutu að strandsvæðiskipulagi og öryggi siglinga.