Kostnaður við nýtt fangelsi tvöfaldaðist frá fyrstu áætlunum eða úr sjö milljörðum í 14 milljarða en reikna má með að sú upphæð hækki einnig, venju samkvæmt.
Nýtt fangelsi verður reist á Stóra-Hrauni í stað núverandi fangelsis að Litla-Hrauni. Kostnaðaráætlun er 14 milljarðar, en fyrst var gert ráð fyrir 7 milljörðum. Ráðherra segir að húsið verði stærra og aðbúnaður hugsaður til framtíðar.
Kostnaðaráætlanir vegna byggingar á nýju fangelsi á Litla Hrauni hafa tvöfaldast frá því að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti um áformin fyrir tæpu ári síðan. Þá sagði hún að nýtt fangelsi myndi kosta 7 milljarða króna í byggingu, en samkvæmt uppfærðum áætlunum er núna gert ráð fyrir því að heildarkostnaður verði 14 milljarðar króna.
Morgunblaðið sagði fyrst frá uppfærðum áætlunum á dögunum. Ráðherra ætlaði að kynna áformin um nýtt fangelsi á Litla-Hrauni á morgun en nú hefur þeim fundi verið frestað samkvæmt tilkynningu:
Athugið að fundinum á Eyrarbakka hefur verið frestað um amk. viku. Nánari upplýsingar þegar nær dregur.
Efni fundarins var eftirfarandi:
Dómsmálaráðherra boðar til kynningar á nýju öryggisfangelsi á Stóra Hrauni miðvikudaginn 13. nóvember kl. 19:30. Viðburðurinn fer fram í Rauða húsinu, Eyrarbakka, Búðarstíg 4.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra flytur opnunarávarp.
Birgir Jónasson, settur forstjóri Fangelsismálastofnunar reifar stöðuna í fullnustumálum og þörfina fyrir nútímalegt fangelsi.
Nína Baldursdóttir, verkefnastjóri hjá Framkvæmdasýslunni-Ríkiseignum kynnir frumathugun og framgang verksins.
Fundurinn er öllum opinn og tekið verður við spurningum að loknum erindum.
Fundinum er einnig streymt á vef stjórnarráðsins.