Sólon Guðmundsson, flugmaður Icelandair sem tók eigið líf í lok sumars í kjölfar ásakana samstarfskvenna hans um meðal annars meint kynferðisofbeldi. Andlát Sólons vakti mikla athygli en hann var aðeins 28 ára gamall þegar hann lést og hafði verið sagt upp störfum hjá Icelandair skömmu fyrir harmleikinn.
Fjölskylda Sólons, foreldrar og systir hans þar á meðal, eru mjög ósátt við afgreiðslu Icelandair á uppsögn Sólons en hún kom í kjölfar ásakana samstarfskvenna hans um meðal annars meint kynferðisofbeldi.
Elsku sonur, Sólon minn
Mikið er erfitt að kveðja þig vitandi hvað þú gekkst í gegnum.
Ég man eftir yndislegum sumardegi, daginn sem þú fæddist. Þú varst svo mikill gleðigjafi fyrir alla í fjölskyldunni, fyrsta barnabarn ömmu Hjördísar og Eva Rós fékk lítinn bróður. Þú dafnaðir vel, lærðir snemma að tala og söngst mikið sem barn. Þú áttir þína drauma. Þig dreymdi um að verða fótboltamaður, píanóleikari, flugmaður, flugstjóri og framkvæmdastjóri. Allt rættist nema flugstjórinn. AVIA fyrirtækið var litla barnið þitt sem þú byggðir upp frá grunni og hugsaðir vel um.
Við áttum margar góðar og skemmtilegar stundir saman. Ég man þegar þú flaugst með mig yfir Snæfellsjökul á sólríkum sumardegi og sagðir við mig að nú værir þú búinn að fljúga með erfiðasta farþegann. Yfir því gátum við bæði hlegið lengi vel. Þú hafðir gaman af að elda og baka, þú gerðir oft gómsæta rétti og súkkulaðikökur til að gleðja mig og aðra. Þú elskaðir að spila á píanóið og þá voru jólalög í sérstöku uppáhaldi hjá þér. Þú vildir lifa lífinu, ferðast, skemmta þér og þú varst alltaf að sækja fram og gera nýja hluti.
En lífið breyttist hratt hjá þér þegar þú varðst fyrir einelti á þínum vinnustað, Icelandair. Þú gast ekki stoppað það og baðst um hjálp frá þínum vinnuveitanda. Þú sagðir þeim hvað það væri erfitt fyrir þig að vera til þessa dagana og mæta í vinnuna á meðan kjaftasögur og slúður væri í gangi. Þau hlustuðu ekki á þig og létu þig burðast með þetta álag á herðum þér mánuðum saman með því að setja þig ekki í leyfi. Þau þreyttu þig.
Icelandair boðar þig á fund í lok ágúst. Þar var þér sagt að það væri komin alvarleg ásökun á þig. Þú spurðir um þessa alvarlegu ásökun og baðst um að fá að vita nöfn á þeim sem væru að ásaka þig. Hvers eðlis ásökunin væri, hvenær og hvar atburðurinn hafi átt að eiga sér stað og afhverju alvarlegar ásakanir færu ekki til lögreglu. Þú spurðir ítrekað um þetta en þér var neitað um þessar upplýsingar.
Þú fékkst ekkert að vita. Þér var stillt upp við vegg, „Annað hvort segir þú upp eða við segjum þér upp störfum – en það mun líta miklu verr út fyrir þig ef að við segjum þér upp.“ Faglærðir starfsmenn mannauðsdeildar Icelandair sleppa takinu af þér án þess að láta nokkurn vita. Ég móðir þín og nánasti aðstandandi, var ekki látin vita. Þú fékkst ekki að verja þig sem að hefði komið í veg fyrir að þú tækir þitt eigið líf. Einelti og atvinnumissir eru algengar orsakir sjálfsvíga. Þú ferð einn heim til þín, skrifar bréf til okkar foreldranna, biður okkur fyrirgefningar og segist vilja deyja í friði.
Gerendur þínir í eineltismálinu þurftu nú að snúa sókn í vörn. Þau kærðu þig nokkrum dögum eftir andlát þitt og tilgangurinn með þeirri kæru var augljóslega ekki réttlæti heldur ráðabrugg. Það var tekið sig saman á sunnudegi nokkrum klukkustundum eftir að andlát þitt spurðist út. Sunnudagur er óvenjulegur dagur til að ráðfæra sig við lögfræðinga. Kærunni var komið á framfæri í fjölmiðlum með óskýrum dagsetningum, þar sem reynt var að gefa í skyn að hún hefði borist til lögreglu áður en andlát þitt átti sér stað.
Það vekur hins vegar miklar grunsemdir hvernig staðið var að þessu máli, þar sem lögregla hafði í tvígang áður staðfest við okkur að engin mál, kærur eða dómar tengdir þér væru á borði þeirra. Þrátt fyrir þessa staðfestingu birtist kæran skyndilega, samhliða því að málið var gert opinbert í fjölmiðlum. Þau sem stóðu að kærunni höfðu það eitt að markmiði að afvegaleiða umræðuna og sverta mannorð þitt.
Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns. Það er óásættanlegt hvernig þau hafa komið fram. Bréfi lögfræðings okkar var svarað á degi eineltis á þá leið að okkur yrðu engin svör gefin. Þau vildu bara losna við þig. Þögn þeirra og afneitun tala sínu máli. Hvað er verið að fela?
Þú varst þolandi hræðilegs eineltis. Í allri þinni baráttu sýndir þú af þér yfirvegun og virðingu gagnvart öðrum, jafnvel þeim sem beittu þig óréttlæti. Þú kallaðir eftir hjálp frá Icelandair, hún barst aldrei og á endanum var það þessi grimmd og skeytingarleysi sem ýtti þér yfir bjargbrúnina.
Sólon, elsku drengurinn okkar, þú verður ekki gleymdur. Þú hafðir sterka rödd og hún mun fá að heyrast. Við munum sjá til þess að réttlætið nái fram að ganga – að saga þín muni ekki víkja til hliðar vegna ósanninda eða rangfærslna. Takk fyrir að vera til.
Minning um góðan son lifir í hjarta okkar.
Elsku Sólon minn við munum elska þig að eilífu.
Þínir foreldrar, Rut Ólafsdóttir og Guðmundur Þórðarson.