Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. janúar, en alls var tilkynnt um 35 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 5. janúar kl. 13.03 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Reykjavík og í hlið bifreiðar, sem var ekið frá gatnamótunum við Bústaðaveg áleiðis í vinstri beygju norður Reykjanesbraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 6. janúar. Kl. 15.08 varð árekstur bifreiðar, sem var ekið austur Dalbrekku í Kópavogi að aðkeyrslu að bifreiðastæði hjá Bónus, og bifreiðar, sem var ekið frá því sama bifreiðastæði. Við það hafnaði fyrrnefnda bifreiðin á þriðju bifreiðinni og fór síðan áfram í port bak við hús við Nýbýlaveg og lenti þar á fjórðu bifreiðinni áður en hún loks stöðvaðist.
Ökumaðurinn sem ók austur Dalbrekku var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.55 var bifreið ekið vestur Urriðaholtsstræti í Garðabæ, að gatnamótum við Kauptún, og aftan á aðra bifreið á beygjurein, sem var kyrrstæð vegna umferðar fram undan. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 7. janúar. Kl. 6.33 varð árekstur með bifreið sem var ekið austur Valahjalla í Kópavogi og bifreiðar, sem var ekið norðvestur Nýbýlaveg. Fyrrnefndi ökumaðurinn er talinn hafa ekið gegn rauðu ljósi inn á gatnamót Valahjalla, Nýbýlavegar og Skemmuvegar.
Hinn ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.35 varð tveggja bíla árekstur á Breiðholtsbraut í Reykjavík, á gatnamótum við Seljaskóga, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum hugðist annar ökumannanna taka vinstri beygju á gatnamótunum og aka suðvestur Seljaskóga.
Fjórir farþegar úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild, en öryggisbúnaði þriggja þeirra var ábótavant. Og kl. 21 var bifreið ekið suður Sæbraut í Reykjavík, að gatnamótum við Skeiðarvog, og aftan á aðra bifreið sem var kyrrstæð á rauðu ljósi. Ökumaður aftari bifreiðarinnar og tveir farþegar úr henni voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 8. janúar kl. 8.35 varð fjögurra bíla aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi í Kópavogi, sunnan Kópavogsgjár, en þeir voru allir á norðurleið. Öftustu bifreiðinni var ekið á kyrrstæða bifreið, sem hafði stöðvað vegna umferðar fram undan. Sú kastaðist áfram á þriðju bifreiðina og hún síðan á þá fjórðu. Tveir ökumannanna fóru á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.