Kynbundin og kynferðisleg áreitni
Allir eiga rétt á því að starfsumhverfi þeirra einkennist af gagnkvæmri virðingu í samskiptum. Í því felst að starfsmenn eiga rétt á því að njóta skilyrðislausrar verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað.
BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa hafa gefið út netbækling þar sem farið er yfir ýmis atriði tengt kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Í bæklingnum er farið yfir skilgreiningu kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Þar má finna dæmi um þá hegðun sem fellur undir þessar skilgreiningar og skyldur atvinnurekenda vegna slíkrar hegðunar. Þá er einnig farið yfir úrræði fyrir einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir slíkri hegðun.
Afleiðingar kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis geta verið margvíslegar. Slík hegðun getur haft afleiðingar fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt, eins og lesa má um í bæklingnum.
Einstaklingar geta meðal annars fundið fyrir verri heilsu, streitu, þunglyndi, niðurlægingu, pirringi og lent í tekjutapi. Á vinnustöðum geta starfsmannavelta og veikindi aukist og framleiðni dregist saman, auk þess sem áhrifin á orðspor vinnustaða geta verið mikil. Í samfélaginu ýtir hegðun af þessu tagi til dæmis undir misrétti, kynbundinn launamun og aukinn útgjöld af ýmsu tagi.
Í bæklingnum eru lykilhugtökin skilgreind á eftirfarandi hátt:
- Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
- Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
- Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Bæklinginn má finna hér. Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum má finna hér.
Hádegisverðarfundur um kynbundna og kynferðislega áreitni
Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars 2016 héldu BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa hádegisverðarfund undir yfirskriftinni „Örugg í vinnunni?“ Á fundinum var fjallað um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Nýjar reglur hafa tekið gildi
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, fjallaði í erindi sínu um nýjar reglur sem gilda um málaflokkinn. Þær skylda til dæmis vinnuveitendur til að vernda starfsmenn fyrir áreiti af hendi þriðja aðila, til dæmis viðskiptavina. Einnig er komið inn nýtt ákvæði sem skyldar vinnuveitendur til að bregðast við til að tryggja góða líðan starfsmanna í kjölfar kvörtunar yfir áreiti, hvort sem niðurstaða athugunar er sú að um áreiti hafi verið að ræða eða ekki.
Glærur Sonju eru aðgengilegar hér.
Mikill munur á áhrifum á kynin
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, fjallaði í erindi sínu meðal annars um áhrif kynferðislegrar áreitni á öryggistilfinningu þolenda. Hún vitnaði í rannsókn sem sýnir að áhrifin á kvenkyns þolendur eru mun meiri en á karlkyns þolendur. Um 45% kvenna sem orðið hafa fyrir áreitni af þessu tagi hafi upplifað mikil eða mjög mikil áhrif á öryggistilfinningu, en 0% karla í sömu rannsókn.
Glærur Drífu eru aðgengilegar hér.
Óhjákvæmileg áreitni?
Finnborg Salome Steinþórsdóttir, doktorsnemi í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, ræddi hvort kynferðisleg áreitni sé óhjákvæmileg. Hún vitnaði í eigin rannsókn, þar sem fram kom að um helmingur þeirra lögreglumanna sem orðið hafa fyrir kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starf sitt hafi ekki tilkynnt um það því þeir hafi ekki talið árásina nægilega alvarlega.
Glærur Finnborgar eru aðgengilegar hér.
#metoo byltingin
Fjölmargar konur um allan heim stigu fram undir myllumerkinu #metoo í október 2017 og mánuðina þar á eftir og rufu þögnina um kynferðislega og kynbundna áreitni og annað ofbeldi í hinum ýmsu geirum samfélagsins. Hópar kvenna sögðu sínar sögur á samfélagsmiðlum og sendu þær í kjölfarið á fjölmiðla.
BSRB og önnur samtök launafólks á vinnumarkaði sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í nóvember 2017 þar sem kallað var eftir því að atvinnurekendur og stjórnvöld öxluðu ábyrgð og stórefldu aðgerðir til að útrýma áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Var jafnframt lýst yfir vilja samtaka launafólks að taka þátt í slíkum aðgerðum.
Trúnaðarmenn virkjaðir
Í kjölfarið sendi formaður BSRB bréf á öll aðildarfélög bandalagsins sem þau síðan framsendu á sína trúnaðarmenn þar sem þeir voru virkjaðir í baráttunni gegn kynferðislegu áreiti og áreitni á vinnustöðum. Trúnaðarmenn voru þar beðnir um að fylgjast með því að á þeirra vinnustöðum væru til áætlanir um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum og að þær væru aðgengilegar öllum starfsmönnum.
Formaður BSRB undirritaði í janúar 2018 viljayfirlýsingu Vinnueftirlits ríkisins um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í yfirlýsingunni, sem forsætisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra ásamt forsvarsmanna annarra aðila vinnumarkaðarins undirrituðu, er sagt skýrum stöfum að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum verði ekki liðið. Komi slík hegðun upp skuli bregðast við því með markvissum hætti.
Fundur með #metoo konum
Heildarsamtök launafólks ásamt Kvenréttindafélagi Íslands buðu í febrúar 2018 konum sem hafa tekið þátt í umræðum í #metoo hópum til fundar með þjóðfundarsniði til að fá fram þeirra sjónarmið. Á fundinum var ætlunin að móta tillögur að næstu skrefum og aðgerðum stéttarfélaga og heildarsamtaka launafólks vegna #metoo byltingarinnar.
Meðal þess sem rætt var á fundinum var hvað þarf að gera til að breyta menningunni og tryggja öruggt starfsumhverfi. Þar var megináherslan á forvarnir, hvernig stjórnvöld, vinnustaðir og stéttarfélög geti stuðlað að þeim. Þá var einnig fjallað um sérstakar aðgerðir sem gæti þurft að grípa til innan einstakra starfsgreina, sér í lagi þeirra þar sem karlar eru í meirihluta.
Þá var einnig fjallað um hvernig hægt er að tryggja að sanngirni sé gætt þegar kynbundin og kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi á sér stað á vinnustöðum. Þar var meðal annars rætt um farveg fyrir þolendur, hvernig fyrirbyggja má endurtekin brot og viðbrögð gagnvart gerendum.
Að lokum var rætt um þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til til að fylgja eftir #metoo byltingunni. Þar var áherslan á að móta aðgerðaráætlun sem hægt verður að fylgja eftir gagnvart stjórnvöldum, fulltrúum atvinnurekenda og innan stéttarfélaga og heildarsamtaka launafólks. Fjölmargar ábendingar og hugmyndir komu fram í umræðum og verður nú tekið til við að vinna úr þeim.
Nefnd um endurskoðun reglna um einelti á vinnustöðum
Nefndin um endurskoðun reglna um einelti á vinnustöðum var skipuð í september 2011 á vegum Velferðarráðuneytisins. Hún var skipuð fulltrúum aðilum vinnumarkaðarins, Jafnréttisstofu og Vinnueftirlits ríkisins. Sonja Ýr Þorbergsdóttir lögfræðingur BSRB var fulltrúi bandalagsins í nefndinni.
Hlutverk nefndarinnar var að endurskoða reglur í lögum og reglugerðum sem fjalla um einelti á vinnustað, þar á meðal kynferðislega og kynbundna áreitni. Jafnframt átti nefndin meðal annars fjalla um þau álitaefni sem upp hafa komið í tengslum við einelti á vinnustöðum, þar á meðal samspil laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem og um efni rammasamnings aðila vinnumarkaðarins á Evrópuvísu um einelti og ofbeldi á vinnustöðum.
Nefndin starfaði frá september 2011 til fyrri hluta árs 2014 með þó nokkrum hléum á störfum hennar um lengri eða skemmri tíma. Nefndin lagði áherslu á endurskoðun reglugerðar nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti á vinnustað og lagði fram drög að nýrri reglugerð sem var sett í opið umsagnarferli í apríl 2013. Félags- og húsnæðismálaráðherra lagði fram frumvarp til breytinga á lögum að því markmiði að ráðherra hefði heimild til að setja umrædda reglugerð nefndarinnar, með öðrum orðum að reglugerðin hefði lagastoð í desember 2014 sem varð að lögum í júní 2015. Reglugerðin var svo birt 4. nóvember 2015. Reglugerðina má finna hér.