Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta – og barnamálaráðherra, fór nýlega í heimsókn til Heimilis og skóla. Samtökin gegna mikilvægu hlutverki í innleiðingu menntastefnu 2030 og samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, með virkri þátttöku foreldra.
Foreldrar eru mikilvægir bandamenn menntakerfisins og búa yfir ómetanlegri þekkingu sem nýta þarf í þágu nemenda til þess að skólaganga þeirra verði farsæl. Þetta kemur fram í menntastefnu til ársins 2030. Áhersla er lögð á gott samstarf heimila og skóla þar sem gagnkvæm virðing og traust er viðhaft.
Heimili og skóli veita ráðgjöf og stuðning til foreldra og foreldrasamtaka um allt land, ásamt því að gefa út fjölbreytt fræðsluefni til stuðnings við foreldra. Samtökin kynntu starfsemi sína og helstu verkefni fyrir ráðherra, ásamt því hvernig Farsældarsáttmálinn þróaðist eftir viðamikið samtal við foreldra og skólakerfið um land allt þegar unnið var að endurreisn foreldrastarfs í kjölfar heimsfaraldurs. Farsældarsáttmálinn er hugsaður sem lifandi verkfæri fyrir foreldra barna á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og aðra aðila í gegnum skóla eða frístundastarf af ýmsu tagi.
„Ég vil þakka Heimili og skóla fyrir góðar móttökur og fræðandi kynningu. Það var ánægjulegt að ræða hugmyndir um hvernig styrkja megi samstarf foreldra og skóla enn frekar með hag allra barna að leiðarljósi, enda gegna foreldrar lykilhlutverki í menntun og farsæld barna,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra.