Eins og varla hefur farið fram hjá nokkrum manni þá munu ýmsir góðir listamenn stíga á stokk í Vaglaskógi um næstu helgi, með hljómsveitina Kaleo í broddi fylkingar.
Viðburðurinn er að mælast mjög vel fyrir og 7000 miðar seldust upp á augabragði. Þegar slíkur mannfjöldi kemur saman þarf að huga að ýmsum öryggismálum og eitt af því er flug dróna eða annarra flygilda yfir og við mannsöfnuðinn.
Samgöngustofa hefur því, að beiðni Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, bannað drónaflug yfir hátíðarsvæði viðburðarins Vor í Vaglaskógi. Drónabannið gildir frá kl 12:00 laugardaginn 26. júlí 2025 til kl. 08:00 sunnudaginn 27. júlí 2025.
Allt drónaflug, annað en flug löggæsludróna, er bannað á svæðinu á þessu tímabili, nema með sérstöku leyfi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Á myndinni má sjá svæðið sem drónabannið nær yfir.
Umræða