Rúmlega sjö af hverjum tíu sem taka afstöðu telja málflutning stjórnarandstöðu í annarri umræðu um veiðigjaldafrumvarpið hafa verið málþóf til að hindra framgang frumvarpsins gegnum þingið samkvæmt skoðanakönnun Gallup.
18% telja hann ekki hafa verið málþóf heldur eðlilega umræðu um frumvarpið. Naumlega 12% segja hvorugt lýsa viðhorfi sínu.
Nær 90% þeirra sem styðja ríkisstjórnina telja að um málþóf hafi verið að ræða til að hindra framgang frumvarpsins gegnum þingið og ríflega þriðjungur þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina telur það sama. Nær 41% þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina telur hins vegar að um eðlilega umræðu hafi verið að ræða á móti tæplega 7% þeirra sem styðja stjórnina.
Níu af hverjum tíu sem eru hlynnt veiðigjaldafrumvarpinu telja að um málþóf hafi verið að ræða til að hindra framgang frumvarpsins gegnum þingið en tæplega 28% þeirra sem eru andvíg frumvarpinu telja það. Ríflega helmingur þeirra sem eru andvíg frumvarpinu telur að um eðlilega umræðu hafi verið að ræða en rúmlega 7% þeirra sem eru hlynnt frumvarpinu.
Nær þrjú af hverjum fjórum sem segjast hafa kynnt sér efni veiðigjaldafrumvarpsins vel telja málflutning stjórnarandstöðu í annarri umræðu um frumvarpið hafa verið málþóf til að hindra framgang þess gegnum þingið á meðan 55% þeirra sem segjast hafa kynnt sér efni frumvarpsins illa telja það.
Nær 89% þeirra sem eru sátt við beitingu 71. greinarinnar telja að um málþóf hafi verið að ræða til að hindra framgang frumvarpsins á móti ríflega 28% þeirra sem eru ósátt við hana. Nær helmingur þeirra sem eru ósátt telja að um eðlilega umræðu hafi verið að ræða en tæplega 8% þeirra sem eru sátt.
Frammistaða
Nær 64% þeirra sem taka afstöðu telja að stjórnin hafi staðið sig betur en stjórnarandstaðan þegar kemur að veiðigjaldafrumvarpinu og afgreiðslu þess en tæplega 22% telja að stjórnarandstaðan hafi staðið sig betur. Ríflega 14% telja að stjórn og stjórnarandstaða hafi staðið sig álíka vel eða illa.