Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, var kjörinn varaformaður frjálslynda þingmannahópsins á þingi ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem lauk í Berlín
Formaður frjálslynda þingmannahópsins er Dr. Hedy Fry, kanadísk þingkona og sú kona sem setið hefur hvað lengst kvenna í heimalandi sínu á þingi eða frá árinu 1993.
Flokkahópar ÖSE þingsins eru 5 talsins.
Aðild að ÖSE-þinginu eiga þjóðþing 56 ríkja Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum og þar af á Alþingi þrjá og er Gunnar Bragi formaður þingmannahóps Íslands. Þingið kemur saman til þingfundar í júlí ár hvert.
Hlutverk ÖSE-þingsins er m.a. að meta árangurinn af starfi ÖSE, ræða mál sem eru á dagskrá leiðtogafunda ÖSE og koma ályktunum þingsins á framfæri við þá, þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum.
Þá hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi og hefur sú starfsemi aukist mjög að umfangi síðustu ár í samvinnu við aðrar fjölþjóðastofnanir.