Alls hljóta 109 verkefni styrk úr Loftslags- og orkusjóði að heildarupphæð 1.308 milljón kr. vegna almennrar auglýsingar sjóðsins árið 2025. Um er að ræða verkefni sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun og innleiðingu nýrrar tækni á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála.
Við ákvörðun styrkja hefur verið lögð áhersla á að hámarka loftslagsávinning af hverri krónu sem varið er úr Loftslags- og orkusjóði. Þannig voru að þessu sinni umsóknir metnar bæði af Umhverfis- og orkustofnun og fagráði sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði til þess að tryggja markvissa og hagkvæma ráðstöfun fjármuna. Endanlega ákvörðun um úthlutun tók stjórn Loftslags- og orkusjóðs. Samhliða tilkynningu um styrkúthlutanir birtir sjóðurinn skýrslu þar sem fjallað er um forsendur úthlutunar og væntan ávinning af verkefnum.
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
„Við beitum Loftslags- og orkusjóði af fullum þunga til þess að hraða orkuskiptum í samgöngum og iðnaði og styðja við rafvæðingu, bætta orkunýtni og hringrásarverkefni um allt land. Markmiðið er ekki aðeins að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda heldur líka aukin samkeppnishæfni, gjaldeyrissparnaður og verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi. Þetta er í samræmi við forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem ég kynnti 12. september síðastliðinn.
Verkefnin sem hljóta styrk úr Loftslags- og orkusjóði eru fjölbreytt: allt frá uppsetningu sólarorkuvera og varaafls fyrir kúabú til rafknúinna hafnsögubáta, moltugerðar og orkuskipta í timburvinnslu, og með úthlutuninni erum við líka að stórauka þekju rafhleðslustöðva um landið og auðvelda þannig fólki að ferðast um Ísland á rafmagnsbíl.“
Mikill áhugi var á styrkjum úr sjóðnum, en styrkumsóknir voru 292 og nam heildarupphæð umsókna alls 8.845 milljónum kr., sem er um sjöföld upphæð úthlutunar. Auglýst var eftir styrkveitingum í fjórum flokkum og gat hver styrkupphæð hæst numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna.
Samkvæmt mati Umhverfis- og orkustofnunar má gera ráð fyrir að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda vegna þeirra verkefna sem hljóta styrki muni nema 22.172 tonnum CO2-ígilda á ári. Þetta jafngildir 2,5% af allri losun frá vegasamgöngum árið 2024. Þá áætlar stofnunin að heildarraforkusparnaður og/eða ný raforkuframleiðsla geti numið 2,9 GWst á ári sem samsvarar rafmagnsnotkun hátt í þúsund rafbíla á ári. Olíusparnaður vegna styrktra verkefna á sviði orkuskipta í samgöngum og rekstri er metinn 8,7 milljón olíulítrar á ári sem samsvarar eldsneytisnotkun u.þ.b. 8.655 bíla árlega.
Orkuskipti í samgöngum 34 verkefni hljóta styrki að upphæð 804,5 milljónir kr.. Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrk að þessu sinni eru hleðslustöðvar, hraðhleðslustöðvar, hleðsluinnviðir fyrir almenningssamgöngur og rafhleðslugeymsla.
Orkuskipti í rekstri eða orkusparnaður 44 verkefni hljóta styrki að upphæð367,4 milljónir kr.. Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrk eru birtuorkuverkefni, varmadælur og orkuskipti í minni skipum, framleiðsla og geymsla sólarorku og nýting metans sem orkugjafa.
Hringrásarverkefni 22 verkefni hljóta styrki að upphæði 113,5 m.kr. Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrk eru moltugerð, lífkolun, textílendurvinnsla, úrgangsstjórnun og fjölnota matvælaumbúðir.
Innleiðing nýrrar tækni og nýsköpun 9 verkefni hljóta styrki að upphæð141,9 m.kr.. Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrk eru umbreyting aukaafurða frá framleiðslu lífeldsneytis í verðmæti, olíusparnaður uppsjávarskipa, rafgreinir og loftfirrt heitgerjunartæki.

