Helgi Pétursson, oftast kenndur við hljómsveitina, Ríó tríó, lést í fyrrinótt eftir langvinn veikindi. Hann var 76 ára gamall. Helgi fæddist í Reykjavík árið 1949, sonur hjónanna Kristínar Ísleifsdóttur og Péturs Kristjónssonar.
Helgi kom víða við á fjölbreyttum ferli, starfaði sem blaðamaður, kennari og við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi, ásamt því að starfa að ferðamálum og eiga sæti í borgarstjórn fyrir Reykjavíkurlistann.
Langþekktastur var hann þó fyrir tónlistina. Hann var söngvari og bassaleikari Ríó tríós sem hann stofnaði árið 1965 ásamt Ólafi Þórðarsyni og Halldóri Fannari en Ágúst Atlason tók síðar við af Halldóri. Ríó tríó varð fljótt landsþekkt í íslensku tónlistarlífi og sendi frá sér hvern stórsmellinn á fætur öðrum á tuttugu plötum, hélt fjölda tónlieka og kom fram í skemmtiþáttum í útvarpi og sjónvarpi.
Á síðustu árum var Helgi í fararbroddi í baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum og var formaður Landssambands eldri borgara.
Eiginkona Helga er Birna Pálsdóttir og eignuðust þau fjögur börn.

