Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, átti fund með Lene Vågslid, barna- og fjölskyldumálaráðherra Noregs, í gær. Á fundinum ræddu ráðherrarnir notkun barna á samfélagsmiðlum og snjalltækjum, hættur og mögulegar lausnir.
Guðmundur Ingi er með til skoðunar að setja aldurstakmark á notkun samfélagsmiðla á Íslandi líkt og unnið er að í nágrannaríkjum á Norðurlöndunum. Norsk og dönsk stjórnvöld sjá fyrir sér að setja mörkin við 15 ára aldur og er setning viðmiða einnig til skoðunar í Svíþjóð. Samstarf á því sviði bar hátt í umræðunum.
Ráðherra kynnti áform stjórnvalda hérlendis um að setja reglugerð um notkun síma og snjalltækja í skóla- og frístundastarfi. Jafnframt sagði hann frá aðgerðum gegn ofbeldi meðal barna. Þá var heildarendurskoðun barnaverndarlaga til umræðu sem mennta- og barnamálaráðuneytið lagði til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda í gær en Norðmenn hafa einnig verið að gera breytingar á sínum barnaverndarlögum.
Ráðherrarnir ræddu þær fjölbreyttu hættur sem fylgja notkuninni og þá þróun sem hefur átt sér stað sem er að mörgu leyti lík í ríkjunum tveimur. Auk þess ræddu ráðherrarnir þróun samræmdra reglna, áhrif gervigreindar, skilgreiningu á miðlunum, samstarf við foreldra og samráð við börn. Þá kynnti Lene Hvítbók um stafrænt öryggi sem gefin var út í Noregi í sumar.

Ráðherrarnir vonast eftir auknu samstarfi landanna þegar kemur að stafrænu öryggi barna og við mótun aldurstakmarks og sömuleiðis nýta þá samstöðu sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins í þessum málum, sem ganga þvert á landamæri.
Að loknu samtali í mennta- og barnamálaráðuneytinu heimsótti norski ráðherrann Barna- og fjölskyldustofu, Barnahús og umboðsmann barna.

