Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, mælti í gær fyrir frumvarpi á Alþingi sem felur í sér að öryrkjum verði tryggð ævilöng aldursviðbót og að almennt frítekjumark ellilífeyrishækki.
„Hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyrisþega og ævilöng aldursviðbót eru breytingar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem boðar aðgerðir til að uppræta fátækt og lyfta greiðslum almannatrygginga til tekjulægri lífeyrisþega. Með frumvarpinu eru stigin mikilvæg skref í átt að réttlátara samfélagi,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra í framsöguræðu sinni í þinginu.
Meginatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
Aldursviðbót
Samkvæmt núgildandi lögum fellur svokölluð aldursviðbót niður þegar öryrki verður 67 ára gamall. Lagt er til að þessu verði breytt og að aldursviðbótin gildi áfram eftir að ellilífeyrisaldri er náð.
Aldursviðbótin er mánaðarleg greiðsla frá Tryggingastofnun sem er ætluð þeim sem eru metnir til örorku ungir að árum og hafa því litla eða enga möguleika á að ávinna sér réttindi í atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Ráðherra benti í þinginu á að það að láta aldursviðbótina gilda út ævina væri mikið réttlætismál.
„Þetta getur skipt sköpum fyrir öryrkja, sem á einni nóttu, 67 ára afmælisnóttunni, misstu þessi réttindi, þegar þeir hófu töku ellilífeyris,“ sagði hún.
Almennt frítekjumark ellilífeyrisþega
Í frumvarpinu er lagt til að almennt frítekjumark ellilífeyrisþega hækki. Frítekjumarkið nær til allra tekna eldri borgara, annarra en atvinnutekna.
Í dag er frítekjumarkið 36.500 kr. á mánuði en í frumvarpinu er lagt til að það hækki upp í 41.500 kr. á mánuði nú um áramótin, hækki aftur ári síðar og endi loks í 60.000 kr. á mánuði þann 1. janúar 2028.
Á ársgrundvelli þýðir þetta að í dag má ellilífeyrisþegi hafa 438.000 kr. í tekjur á ári án þess að ellilífeyrisgreiðslur hans frá Tryggingastofnun byrji að lækka. Þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda mun viðkomandi hins vegar geta haft 720.000 kr. í tekjur á ári án þess að greiðslurnar lækki. Munurinn þarna á milli er 282.000 kr.
„Hækkun frítekjumarksins mun skila tekjuaukningu til mikils meirihluta eldri borgara,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni. „Við lögðum áherslu á það við stjórnarmyndun að eldri borgarar fengju raunverulegar kjarabætur og þessi aðgerð er hluti af þeim kjarabótum.“
Skráning upplýsinga, endurhæfing og fleira
Í frumvarpinu eru einnig lagðar til aðrar breytingar, meðal annars sem varða nýja örorku- og endurhæfingarkerfið.
Þannig er lagt til að Tryggingastofnun starfræki upplýsingakerfi samhæfingarteyma og haldi skrá með upplýsingum um framvindu viðurkenndrar meðferðar og endurhæfingar einstaklinga. Skránni er ætlað að tryggja nauðsynlega yfirsýn yfir þjónustu og stuðla að samfellu í þjónustu og greiðslum. Persónuauðkenni í skránni verða dulkóðuð.
Ráðherra lagði í ræðu sinni áherslu á að breytingunni væri ætlað að stuðla að því einstaklingar fengju rétta endurhæfingarþjónustu á réttum stað og á réttum tíma.

