Vegna misvísandi upplýsinga í fjölmiðlaumræðu um vímuefnaneyslu ungmenna þá vekur mennta- og barnamálaráðuneytið athygli á útgáfu Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar fyrr í vikunni.
Hún er ítarlegasta rannsókn sem framkvæmd er hérlendis á vímuefnaneyslu ungmenna, auk þess að rannsaka fjölda annarra þátta. Í vikunni komu fram fréttir um að unglingadrykkja hafi aukist að nýju en samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hefur vímuefnaneysla ungmenna ekki aukist í ár eða síðustu ár. Hún hefur frekar verið að dragast saman og ef horft er lengra aftur í tímann hefur vímuefnaneysla ungmenna dregist verulega saman.
Mennta- og barnamálaráðherra vakti athygli á því á Alþingi að staðhæfing um aukna neyslu ungmenna væri ekki rétt og birti Morgunblaðið frétt um það. Hins vegar, í stað þess að koma leiðréttingunni á framfæri þá stillir miðillinn fram annarri tölfræði og gefur þannig til kynna að ráðherra segi ósatt með fullyrðingu sinni: „Þessi fullyrðing gengur aftur á móti í berhögg við það sem kemur fram í skýrslu Barna- og fjölskyldustofu um samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónustu á árunum 2022-2024,“ segir í frétt Morgunblaðsins. Tölfræðin sem þarna er vitnað í er ekki tölfræði um almenna vímuefnaneyslu ungmenna og ekki er minnst einu orði á heimild ráðherra, sem eru upplýsingar úr nýrri rannsókn, þeirri umfangsmestu og áreiðanlegustu á þessu sviði.
Mikilvægt er að rangfærslur um svo stórt samfélagsmál séu leiðréttar til varnar upplýsingaóreiðu og ef hnekkja á tölfræði, að bera þá saman tölfræði um sama hlutinn. Fjöldi tilkynninga til barnaverndar er ekki mælikvarði fyrir almenna vímuefnaneyslu ungmenna heldur tölfræði yfir fjölda alvarlegustu málanna sem upp koma vegna fíknivanda ungmenna og ber að tilkynna.
Ekki er vitað hvort sú aukning komi til vegna vitundarvakningar um tilkynningaskyldu eða vegna aukningar á fjölda mála en þróunina ber að taka alvarlega og bregðast við henni. Það er hins vegar ekki mælikvarði á almennri neyslu ungmenna á vímuefnum og ekki það sem var til umræðu. Það að almenn vímuefnaneysla barna hafi dregist saman á undanförnum árum og áratugum ber að fagna frekar en mála af bölsýni. Margir fjölbreyttir aðilar eiga hrós skilið fyrir sitt forvarnarstarf og ekki má gefa eftir í þeirri baráttu.
Fjölmiðillinn hafði ekki brugðist við ábendingum ráðuneytisins um villandi upplýsingagjöf þegar þessi frétt var skrifuð og er upplýsingum því komið hér á framfæri.

