Ógnin frá Rússlandi og áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu voru meðal helstu umræðuefna á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum.
Bandalagsríkin þrjátíu og tvö ræddu stöðuna í öryggisumhverfi Evrópu og þær ógnir sem að bandalagsríkjunum steðjar. Bar þar hæst vaxandi ógn frá Rússlandi og mikilvægi þess að styðja áfram við varnarbaráttu Úkraínu, og tryggja þar langvarandi og réttlátan frið. Á fundinum ræddu ráðherrarnir eftirfylgni ákvarðana leiðtogafundarins í Haag síðastliðið sumar, m.a. stóraukin framlög til varnarmála, fjárfestingar í varnarinnviðum og getu til að bregðast við þeim öryggisáskorunum sem bandalagið stendur frammi fyrir.
Einnig var fundað í NATO-Úkraínuráðinu með utanríkisráðherra Úkraínu, auk þess sem utanríkismálastýra Evrópusambandsins tók þátt. Til umræðu var staðan á vígvellinum og í friðarumleitunum, helstu varnartengdu þarfir Úkraínu og þær lýðræðislegu umbætur sem Úkraína hefur undirgengist í vegferð sinni í átt að aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu.
„Þetta hafa verið viðburðaríkar vikur og mjög gott að ríki Atlantshafsbandalagsins stilli saman strengi á þessum tímapunkti, því samstaðan er mikilvægari sem aldrei fyrr,“ segir Þorgerður Katrín. „Ógnin frá Rússlandi og stríðið í Úkraínu voru augljóslega efst á baugi. Áframhaldandi stuðningur við Úkraínu, svo koma megi á langvarandi og réttlátum friði, er ekki einungis nauðsynlegur fyrir öryggi og framtíð Úkraínu, heldur Evrópu allrar. Undir eru grundvallarhagsmunir og gildi, þ.m.t. virðing fyrir alþjóðalögum og því skipulagi öryggismála sem við höfum notið góðs af í um 80 ár.”
Utanríkisráðherra tók einnig þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna með utanríkisráðherra Bretlands, m.a. um stöðuna í Úkraínu sem og fjölþáttaógnina frá Rússlandi.



